Guðmundur Ari Sigurjónsson, bæjarfulltrúi á Seltjarnarnesi, hefur lýst yfir framboði til formanns Samfylkingarinnar en hann er fjórði frambjóðandinn sem stígur fram á skömmum tíma.
„Það hafa engin formleg framboð borist okkur enn til formanns en ásamt Guðmundi Ara hafa þau Helgi Hjörvar, Magnús Orri Schram og Oddný G. Harðardóttir öll lýst yfir framboði til formanns flokksins,“ segir Kristján Guy Burgess, framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar.
Helgi Hjörvar og Oddný G. Harðardóttir eru bæði þingmenn flokksins og Magnús Orri Schram er fyrverandi þingmaður og núverandi ráðgjafi hjá Capacent. Kosningar til formanns fara að mestu fram með rafrænum hætti.