Hægt væri að gera báta út alfarið með íslenskri orku verði hugmyndir NAVIS að raunveruleika.
Fyrirtækið hefur ásamt Naust Marine, Íslenska sjávarklasanum/Green Marine Technology og NýOrku sótt um frumherjastyrk til Rannís til að hanna fyrsta hybrid- eða tvinn-línuveiðibátinn á Íslandi.
Í umfjöllun um áform þessi í Morgunblaðinu í dag segir að hugmyndin sé að hanna frá grunni 15 metra línubát sem getur gengið bæði fyrir rafgeymum og rafmótor eða díselvél og síðar jafnvel fyrir rafmagni og metanóli. Hjörtur Emilsson, framkvæmdastjóri NAVIS, segir áhugan mikinn enda eldsneytissparnaður allt að 30 prósent.