Ríkisstjórninni ekki sætt

Svandís Svavarsdóttir segir landinu stjórnað af auðmönnum sem telja sig …
Svandís Svavarsdóttir segir landinu stjórnað af auðmönnum sem telja sig ekki þurfa að lúta sömu reglum og almenningur. Ómar Óskarsson

„Staðan er orðin sú að það blasir við öllum að þessari ríkisstjórn er ekki sætt og við vonum náttúrulega að hún átti sig á því sjálf,“ segir Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna. En fjölmiðlar greindu frá því í gær að þrír ráðherrar og fleira áhrifafólk í stjórnmálum væru á lista yfir eigendur aflagsfélaga í skattaskjólum.

„Ég held að samfélagsumræðan og viðbrögðin bæði í stjórnmálunum og úti í samfélaginu hljóti að kalla fram a.m.k. eitthvað mat á því hvort þetta gangi.“ Staða allra sé vissulega ekki sú sama og fari eftir því hverjir eiga í hlut. „En það breytir því ekki að það er greinilegt að stemningin er sú að snúa bökum saman og standa vörð um þessa staðreynd máls, sem er sú að hér er landinu stjórnað af auðmönnum sem telja sig ekki þurfa að lúta sömu reglum og almenningur.“

Stjórnarandstaðan mun funda síðdegis í dag og stilla saman strengi sína, en Svandís er sammála þeim orðum Árna Páls Árnasonar, formanns Samfylkingarinnar, að tengsl við aflandsfélög í skattaskjólum samrýmist ekki trúnaðarstörfum í stjórnmálum.

„Aðalatriðið er þó að við þurfum að gæta mjög vel að okkar hlutverki sem er að vera aðhald og hafa eftirlit með framkvæmdavaldinu. Hér er mjög svo freklega farið yfir strikið að það kallar á að við skoðum hvaða verkfæri við höfum til að öll kurl komist til grafar. Alvarleiki málsins er slíkur að við þurfum við að finna leiðir til þess að kalla allar upplýsingar fram.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert