„Við teljum í raun og veru að það sé mjög rík krafa uppi í samfélaginu um viðbrögð af hálfu þingsins. Ég held að réttu viðbrögð séu þau að rjúfa þing og boða til kosninga,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, í samtali við mbl.is.
Samþykkt var á fundum þingflokka stjórnarandstöðuflokkanna síðdegis að leggja fram tillögu í næstu viku um að þing verði rofið og boðað til nýrra kosninga. Hvort vantrautstillaga á ríkisstjórnina verður hluti þeirrar tillögu eða kemur í kjölfarið verður ákveðið síðar.
Katrín segir að komnar séu fram upplýsingar um að ákveðnir ráðamenn tilheyri þeim ríka forréttindahópi sem geymt hafi fé í erlendum skattaskjólum og það sé mjög alvarlegt mál. „Forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar hafa sagt að þeir óttist ekki vegna árangurs ríkisstjórnarinnar og þá tökum við þá bara á orðinu.“
Katrín segir ljóst að enginn stjórnmálaflokkur sé tilbúinn fyrir kosningar spurð hvenær hún sjái fyrir sé að þingkosningar færu fram yrði tillagan samþykkt. Málið skipti hins vegar meðal annars máli fyrir álit umheimsins á Íslandi enda hafi Íslendingar tekið á sig alþjóðlegar skuldbindingar um að taka þátt í þeirri vinnu að útrýma skattaskjólum.
„Því fyrr sem almenningur fær að segja skoðun sína á þessum málum því betra.“