Vigdís Hauksdóttir og Steingrímur J. Sigfússon eru sammála um að opinbera öll gögn um föllnu bankana og endurreisn þeirra frá tíð síðustu ríkisstjórnar. Þetta kom fram í Kastljósi kvöldsins þar sem Vigdís og Steingrímur ræddu um hugmyndir Framsóknarflokksins um að afnema 110 ára regluna svo kölluðu. Ræddi Vigdís m.a. um „dauðalistann“sem hún segir hafa að geyma nöfn fyrirtækja sem bankarnir hafi mátt keyra í þrot.
„Þetta er mjög óeðlilegt, árið 2016, að loka gögn niðri með með þessum hætti,“ sagði Vigdís. „Við erum herlaust land, við erum ekki með leyniþjónustu þannig að okkar mati verðum við að færa þetta til baka, bara líka til þess að klára þessa tortryggni sem er út um allt í samfélaginu.“
Steingrímur sagði stjórnvöld bera skylda til að upplýsa almenning vegna þeirra atburða sem hér hafi orðið og vegna ríkrar tortryggni samfélagsins. Sagði hann stjórnvöld eiga að ganga eins langt og þau teldu sér framast unnt í þessum efnum.
„Ég er mjög áhugasamur um að allt sem hægt er að gera opinbert í þessum efnum verði gert opinbert og sem mest af gögnum sem varða það sem hér hefur gerst í bankamálum frá einkavæðingu bankanna upp í gegnum hrunið, að sjálfsögðu þennan kafla sögunnar sem snýr að uppgjöri milli gömlu og nýju bankanna og svo alveg til dagsins í dag – viðræður við kröfuhafa undanfarna mánuði og misseri og hvernig það varð niðurstaða að þeir greiddu stöðugleika framlög en ekki miklu hærri stöðugleikaskatt.“
Steingrímur sagði þó áherslu Framsóknar á 110 ára regluna svokölluðu byggja á misskilningi þar sem henni væri ætlað að vernda viðkvæmar persónuupplýsingar fólks á meðan það væri á lífi.
„Þessi regla sem framsóknarmenn hafa verið svona uppteknir af er algerlega sértæk undanþáguheimild fyrir þjóðskjalavörð og hefur ekkert með þau gögn sem eru á þingi að gera.“
Sagði Steingrímur að meðal gagna frá fjármálaráðuneyti Bjarna Benediktssonar væru persónuleg gögn einstaklinga sem ráðuneytið hefði ekki lagaheimild til að birta. Alþingi gæti vissulega ákveðið að breyta því en þyrfti þá einnig að taka ábyrgð á því að kannski væri þá gengið á rétt einhvers.
Vigdís sagðist hafa boðið það fram að upplýsingar um fyrirtæki eða einstaklinga sem „urðu fyrir barðinu á einkavæðingu bankanna“ yrðu þurrkaðar út.
„Dauðalistinn í heild sinni er t.d. í gögnunum sem eru niðri á Alþingi, hann er þar.“
Tilvera listans hefur verið dregin í efa og aðspurður þverneitaði Steingrímur fyrir tilvist hans.
„Þetta er bara yfirgengileg þvæla,“ sagði Steingrímur. „Er kannski verið að þvæla í þessu máli Vigdís mín vegna þess að menn vilja gjarnan tala um eitthvað annað þessa dagana en það sem brennur á þjóðinni?“