Eitt af páskatilboðum Grillbúðarinnar hljóðaði upp á sex brennara Landmann-grill sem kostaði 299.900 krónur. Tvö grill voru á tilboðinu og seldust fljótt, að sögn Einars Long, framkvæmdastjóra Grillbúðarinnar. Grillið er kallað útieldhús, með granítborðplötu og innbyggðu kæliboxi.
„Við vorum að losa út eldra módel af þessu grilli, það vildu svo margir nýju týpuna af því að við losuðum það út og lækkuðum verðið. Við seljum töluvert af grillum sem kosta 250 til 300 þúsund þótt mest sé selt af grillum sem kosta 90 til 100 þúsund.“
Einar segist finna fyrir töluverðri aukningu í seldum grillum sem séu dýrari og vandaðri. Með réttum útbúnaði getur grillið orðið eign til margra ára sem einnig er hægt að nota að vetri til.
„Þetta eru flottari grill með ljósum, granítborðplötum og öllum pakkanum og oftar en ekki er maturinn betri sé hann eldaður í slíkum grillum. Það eru ákveðnir eiginleikar í þeim sem geta gert matinn betri. Margir smíða í kringum þessi grill og gera huggulegt. Það eru mismunandi áhugamál hjá fólki,“ segir hann og hlær.
Það er ekki bara hægt að kaupa rándýr grill í Grillbúðinni heldur er búðin einnig með ódýrari.
„Við erum með fá merki en góð. Grillið þarf að þola íslenska veðráttu og svo skiptir máli að það séu til varahlutir í þau. Landman, sem er okkar innflytjandi, er 50 ára í ár og mörg flott grill frá þeim fyrir sumarið.“