Einhugur ríkti um niðurstöðuna

Stefán Gíslason á fundinum í Kaldalóni í Hörpu.
Stefán Gíslason á fundinum í Kaldalóni í Hörpu. mbl.is/Styrmir Kári

Í drögum að lokaskýrslu þriðja áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar er m.a. lagt til að þrjú stór vatnsföll verði ekki virkjuð, eða Héraðsvötn, Skjálfandafljót og Skaftá.

Einnig er lagt til að neðri hluta Þjórsár og Skrokköldu verði ráðstafað, en hart hefur verið deilt um framtíð þessara svæða.

Frétt mbl.is: Sjö virkjanakostir settir í nýtingarflokk

Fjölbreytt lífríki í Héraðsvötnum

Aðspurður segir Stefán Gíslason, formaður verkefnisstjórnar rammaáætlunar, að ástæðan fyrir því að lagt er til að vatnsföllin þrjú verði ekki virkjuð séu mikil verðmæti á þeim svæðum.

„Í Héraðsvötnum er mjög fjölbreytt lífríki. Þar er margt sem kemur inn í. Það eru flæðiengjar við ósana sem eru mjög sérstakar. Það eru líka fyrirbæri uppi á hálendinu sem eru mjög sérstök sem gætu spillst og í raun og veru ber Ísland alþjóðlega ábyrgð á að vernda þau,“ segir Stefán og nefnir Orravatnsrústir sem dæmi. „Það eru freðmýrarrústir sem verða kannski á meðal þeirra síðustu sem hverfa við loftslagsbreytingar, því þær eru í svo mikilli hæð yfir sjó.“

Virkjanir myndu útiloka ferðaþjónustu

Hann bætir við virkjanir í Héraðsvötnum myndu útiloka að miklu leyti útiloka nýtingu ferðaþjónustunnar á svæðinu, þ.e. fljótasiglingar, þó svo að það hafi ekki haft áhrif á ákvörðunina um að leggja til að svæðið færi í verndarflokk. Sú ákvörðun byggir ávallt á verðmæti svæðisins. „Hins vegar þá myndi önnur fyrirhuguð nýting, eins og t.d. fyrir ferðaþjónustu, vinna gegn því að þetta færi í orkunýtingarflokk, því það eru svo miklir hagsmunir í ferðaþjónustunni.“

Fuglafriðland við Héraðsvötn.
Fuglafriðland við Héraðsvötn. mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

Stefán segir að í Héraðsvötnum sé jafnframt langur, óraskaður farvegur. Sömu sögu er að segja af Skjálfandafljóti. „Þar eru mjög mikilvæg náttúrufyrirbæri. Bæði liggur gróður mjög hátt uppi og síðan eru fossar þarna. Þarna er mikið víðerni líka og það hefur verið mótuð landsskipulagsstefna um að mannvirki vegna orkunýtingar séu ekki byggð upp á víðernum.“

Jarðfræðileg sérstaða Skaftár

Hvað Skaftá varðar segir hann að þar sé kerfið mjög flókið með mikla jarðfræðilega sérstöðu. „Þar eru minjar um Skaftárelda og mjög sérstæð jarðsaga sem er í sjálfu sér ennþá virk. Vatnafarið þar er mjög sérstakt. Þar er gruggugt jökulfljót og einnig tærir lækir sem seytla í gegnum hraunið. Þeir geta orðið fyrir áhrifum ef þú ferð að færa aurinn til,“ greinir Stefán frá.

66 fundir að baki 

Fundur verkefnisstjórnar þriðja áfanga rammaáætlunar í Hörpu í dag var sá fyrsti í röð kynningarfunda sem verða haldnir um land allt.

Verkefnisstjórnin hóf störf árið 2013 og er hlutverk hennar að veita ráðherra ráðgjöf um vernd og orkunýtingu landsvæða.

Bekkirnir voru þétt setnir í Kaldalóni.
Bekkirnir voru þétt setnir í Kaldalóni. mbl.is/Styrmir Kári

Að mati Stefáns hefur samstarfið innan hópsins gengið mjög vel fyrir sig. „Þetta er mikil vinna. Við erum búin að halda 66 fundi frá því við tókum til starfa og eigum marga fundi eftir. En það sem er skemmtilegast og jákvætt er að verkefnisstjórnin er einhuga um þessa niðurstöðu í dag," segir hann.

„Við komumst að sameiginlegri niðurstöðu í öllum tilvikum. Það kom aldrei til atkvæðagreiðslu og menn voru aldrei að beita sér til að halda fram einhverjum hagsmunum. Þeir voru víðsfjarri. Við fórum yfir rökin og komumst að sameiginlegri niðurstöðu. Það finnst mér sönnun þess að þetta hafi gengið vel.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert