Vilhjálmur Þorsteinsson hefur ákveðið að segja af sér embætti gjaldkera Samfylkingarinnar. Þetta kemur fram í pistli á vefsíðu hans, en í dag kom fram að hann ætti eignarhaldsfélag í Lúxemborg, en landið hefur gjarnan verið skilgreint sem skattaskjól. Vilhjálmur tekur í pistlinum fram að ástæða staðsetningar félagsins sé aftur á móti ekki tengd skattamálum, heldur „fyrst og fremst vegna krónunnar, gjaldeyrishafta og óstöðugleika íslensks efnahags- og stjórnmálaumhverfis,“ eins og hann orðar það sjálfur.
Vilhjálmur fer í pistlinum yfir ástæður þess að hann eigi félag í Lúxemborg og hvernig skattamálum hans sé háttað. Meðal annars að hann greiði skatta vegna arðgreiðsla hér á landi o.s.frv. Segir hann að þrátt fyrir þessar skýringar sé svo „flókið eignarhalds- og fjárfestingadæmi hjá gjaldkera Samfylkingarinnar – jafnaðarmannaflokks Íslands“ ekki til þess fallið að fókusa umræðuna um aflandsfélög og skattaskjól á það sem máli skiptir, en Vilhjálmur segir það vera ríkisstjórnina og stjórnarmeirihlutann í landinu.
Segist hann því styðja stjórnarandstöðuna í því að kalla fram ábyrgð ríkisstjórnarflokkanna á sínu fólki, en jafnframt segja af sér embætti gjaldkera Samfylkingarinnar.