Guðrún Ólöf Björnsdóttir var á göngu ásamt syni sínum við Gása í Eyjafirði í gærkvöldi þegar mæðginin gengu fram á töluvert magn dauðrar loðnu í fjörunni.
„Ég ákvað að skreppa með strákinn minn út á kvöldgöngu og okkur brá frekar mikið,“ segir Guðrún í samtali við mbl.is og bætir við að loðnan hafi teygt sig marga metra út fjöruna. „Ég hef aldrei séð svona áður.“
Þorsteinn Sigurðsson forstöðumaður nytjastofnasviðs Hafrannsóknarstofnunar segir þetta eiga sér eðlilegar skýringar.
„Þegar loðnan er búin að hrygna þá svamlar hún í sjónum í einhvern tíma þangað til hún leggur upp laupana og rekur þá á land,“ segir Þorsteinn.
„Það er því allt eðlilegt við þetta. Það sem okkur þykir þó merkilegt, ef þetta er svona mikið eins og fréttir herma, þá bendir það til aukinnar hrygningar fyrir norðan,“ segir hann og bætir við að stofninn í kringum Ísland hafi síðustu ár verið lítill í sögulegu samhengi.
„Breytingar í útbreiðslu og undarlegheit í göngum. Það tengja menn breytingum í umhverfisaðstæðum og þessari hlýnun sem hefur átt sér stað.“