Óhræddur við að ganga til kosninga

Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar.
Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar. mbl.is/Styrmir Kári

„Ég á ekki aflandsfélag og eins og einn ráðherra Framsóknarflokksins orðaði það: Það getur verið erfitt að eiga peninga á Íslandi – en ég er einn þeirra sem hefur sloppið við þann kaleik og á enga peninga eins og flestir landsmenn,“ segir Óttarr Proppé, formaður Bjartrar Framtíðar.

Allir sex þingmenn Bjartrar framtíðar ætla að kjósa með þingrofstillögu sem stjórnarandstöðuflokkarnir ætla að leggja fram á Alþingi eftir helgi. Björt framtíð telur það mikilvægt að forsætisráðherra svari fyrir sín mál og að það verði leitt í ljós hvort hann njóti stuðnings.

Björt framtíð mældist með 4,2 prósenta fylgi í síðustu könnun MMR sem birt var um miðjan þennan mánuð. Spurður hvort það sé áhyggjuefni fyrir Bjarta framtíð að ganga til kosninga á tímum sem þessum kveður Óttarr nei við. „Við höfum mikla trú á okkar málefnastöðu, höfum fundið heilmikinn stuðning við okkar málflutning og erum ekkert hrædd við kosningar,“ segir hann og bætir við að fylgi BF sé í sjálfu sér aukaatriði, aðalatriðið sé staða forsætisráðherra og ríkisstjórnar hans.

Gerir sér ekki miklar grillur um að tillagan verði samþykkt

Óttarr segist gera sér grein fyrir því að stjórnarandstaðan sé í miklum minnihluta á þinginu og því geri hann sér ekki of miklar grillur um að þingrofstillaga minnihlutans verði samþykkt. Spurður hvort að túlka megi orð hans þannig að um sé að ræða táknræna tillögu segist Óttarr vera annálaður bjartsýnismaður svo hann haldi í vonina.

„En sagan sýnir okkur að vantraust á sitjandi ríkisstjórnir, sérstaklega sem séu með mikinn meirihluta, hefur varla nokkurn tíma verið samþykkt. Umræðan þarf að fara fram og við þurfum að fá það staðfest við þessar breyttu aðstæður hvort forsætisráðherra og ríkisstjórnin njóti fulls stuðning hjá báðum stjórnarflokkum,“ segir hann.

Mál Bjarna og Ólafar alvarleg, en mál Sigmundar alvarlegra

Fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna sem mbl.is hefur rætt við í morgun hafa beint spjótum sínum að Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, forsætisráðherra, og sagt að í hans tilfelli sé staðan alvarlegri en hjá Bjarna Benediktssyni, fjármálaráðherra, og Ólöfu Nordal, innanríkisráðherra, þar sem hann hafi setið beggja megin borðsins í samningaviðræðum íslenska ríkisins og kröfuhafa föllnu bankanna.

Óttarr segir stjórnarandstöðuna fyrst og fremst hafa skoðað mál forsætisráðherra undanfarna daga en mál Bjarna og Ólafar hafi einnig verið rædd. „Eins og er höfum við sérstaklega verið að horfa á mál forsætisráðherra. Hann hefur, og virðist ekki skammast sín fyrir það, leynt upplýsingum. Forsætisráðherra er auðvitað leiðtogi ríkisstjórnarinnar, hann er verkstjórinn, svo þetta er sérstaklega alvarlegt fyrir mann í hans stöðu,“ segir Óttarr.

Að sögn Óttars eru aflandsfélög í „eðli sínu óeðlileg“. Björt framtíð hafi barist fyrir því, og staðið í þeirri trú, að nokkuð breið pólitísk samstaða ríkti um það að berjast gegn starfsemi skattaskjóla. Segir hann að í því ljósi sé staða Bjarna og Ólafar grafalvarleg líka. „En fyrst og fremst er það ljóst að forsætisráðherra hefur ákveðið að leyna töluverðum hagsmunum sem okkur finnst óásættanlegt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka