83% meiri umferð um Mýrdalssand

Skálafell á Hafursey á Mýrdalssandi er meðal þess sem ber …
Skálafell á Hafursey á Mýrdalssandi er meðal þess sem ber fyrir augu ferðalanga á svæðinu. mbl.is/Jónas Erlendsson

Umferðin í mars á hringveginum jókst um ríflega 20% frá sama mánuði í fyrra. Aldrei hefur mælst jafn mikil aukning milli mánaða á hringveginum. Mismunandi tímasetning páska skýrir þetta ekki að öllu leyti og verður að telja líklegt að umferð erlendra ferðamanna skýri aukninguna að mestu. Umferðin um Mýrdalssand jókst t.d. um heil 83%.

Þetta kemur fram í samantekt Vegagerðarinnar. 

Umferðin jókst gríðarlega á öllum landssvæðum í mars en mest um Austurland eða um tæp 54% og næst mest um Suðurland eða um tæp 33%. Minnst eykst umferðin við og um höfuðborgarsvæðið en þar mælist samt tæplega 13% aukning.

Ekki er óeðlilegt að umferð sveiflist mikið milli ára yfir vetrartímann en þessi sveifla er umfram það sem venjulega má eiga von á, þrátt fyrir mismunandi tíma páska milli ára. Í sögulegu samengi var mars á síðasta ári rétt yfir meðaltali áranna á undan, en nýliðinn mars reyndist 11% stærri en metmars-mánuðurinn árið 2008. 

Áður fáséð aukning varð um teljara á Mýrdalssandi en þar jókst umferðin um tæp 83% milli mánaða. Umferð á þessum stað hefur verið að aukast gríðarmikið undanfarin ár, t.d. jókst umferðin þarna um 77% milli aprílmánaða 2013 og 2014.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert