Borgarráð samþykkti í gær tillögu að nýju deiliskipulagi á svonefndum Kennaraháskólareit við Stakkahlíð, þar sem fyrirhugað er að þétta byggð með 160 íbúðum, þar af 100 fyrir námsmenn og 60 fyrir eldri borgara.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá við afgreiðslu málsins. Í bókun benda þeir m.a. á að þrátt fyrir hörð mótmæli íbúa í hverfinu, síðast á borgarafundi 9. mars sl., hafi tillögunni verið í engu breytt.
Engin merki sjáist þess að tekið hafi verið tillit til sjónarmiða íbúanna. Velta þeir fyrir sér tilgangi opinna samráðsfunda, undir því yfirskini að verið sé að vinna með íbúum að mótun deiliskipulags, ef ekkert tillit er síðan tekið til ábendinga og athugasemda íbúa.