Ekki ríkir leynd til 110 ára yfir skjölum stjórnsýslunnar um uppgjör og slit viðskiptabankanna eftir hrun, heldur lúta þau hinni almennu reglu laga um opinber skjalasöfn um að skjöl sem geyma viðkvæm fjárhagsmálefni einstaklinga eða upplýsingar sem varða almannahagsmuni skuli vera lokuð í 80 ár. Hægt er að rjúfa leynd yfir slíkum skjölum með samþykki þess sem þau varðveitir eða úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Bankaskjölin í Alþingishúsinu, sem nokkuð hafa verið í opinberri umræðu, eru eingöngu afrit af skjölum í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og gilda þessar reglur því um þau.
Sérstakri undantekningarreglu um 110 ára leynd yfir viðkvæmum skjölum stjórnsýslunnar hefur aldrei verið beitt frá því að hún var lögfest fyrir tveimur árum og á hún því ekki við hér. Samþykkt þingflokks framsóknarmanna á miðvikudaginn um „afnám 110 ára reglunnar er varðar aðgang að gögnum sem varða ákvarðanir stjórnsýslunnar“, eins og það er orðað á vefsíðu Framsóknarflokksins, mundi því ekki hafa nein áhrif á meðferð bankaskjalanna, hvorki hjá Alþingi né í stjórnsýslunni.
Formaður og varaformaður fjárlaganefndar Alþingis, Vigdís Hauksdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson, eru að undirbúa bréf til fjármála- og efnahagsráðuneytisins þar sem þess verður formlega óskað að trúnaði verði aflétt af fyrrnefndum bankaskjölum. Guðlaugur Þór staðfesti þetta í samtali við Morgunblaðið í gær. Þau Vigdís hafa lengi talað fyrir því að skjölin verði almenningi aðgengileg.
Guðlaugur Þór sagði að ef í skjölunum væri vikið að einhverjum viðkvæmum fjárhagslegum einkamálefnum einstaklinga, sem leynt ættu að fara samkvæmt lögum, væri sjálfsagt að þeir hlutar skjalanna kæmu ekki fram opinberlega, enda breyttu þau atriði ekki neinu um þýðingu opinberrar birtingar gagnanna.
Guðlaugur Þór sagði að meirihluti fjárlaganefndar væri sammála þeim Vigdísi um að létta ætti leyndinni af skjölunum.
Sigrún Brynja Einarsdóttir, forstöðumaður nefndasviðs Alþingis, segir að umrædd bankaskjöl hafi komið til þingsins 12. júní 2015 eftir að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafði óskað eftir þeim frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Það hafi verið í tengslum við svokallað Víglundarmál, kennt við Víglund Þorsteinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóra, sem barist hefur fyrir því að öll skjölin verði gerð opinber.
Sigrún Brynja sagði að áskilinn hefði verið trúnaður af hálfu ráðuneytisins um skjölin. Það væri því ráðuneytisins að svara til um mögulega afléttingu trúnaðar á þessum gögnum.
Þess má geta að Alþingi ákvað fyrir tveimur árum að skjöl þess væru ekki skilaskyld til Þjóðskjalasafns eins og allra annarra opinberra aðila. Öll skjöl þingsins, hvort sem um er að ræða frumrit eða afrit, eru því í varanlegri geymslu hjá þinginu. Lögfræðileg óvissa mun um það hvort þetta gildi einnig um skjöl sem urðu til áður en lögunum var breytt. Þetta kemur þó bankaskjölunum umræddu ekki við.
Aldrei hefur reynt á þessa grein. Henni er ætlað að vernda viðkvæm einkalífsmálefni fólks sem er á lífi og tryggja að til að mynda teikningar af húsum sem varða öryggi ríkisins (svo sem fangelsi) séu ekki opinberaðar.