Júlíus stofnaði vörslusjóð í banka í Sviss

Júlíus Vífill biðst afsökunar á að hafa ekki látið sjóðsins …
Júlíus Vífill biðst afsökunar á að hafa ekki látið sjóðsins getið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Júlíus Vífill Ingvarsson borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks hefur tilkynnt að hann hafi stofnað vörslusjóð í svissneskum banka. Sjóðurinn lúti svipuðu regluverki og ef um sjálfseignarstofnun væri að ræða en tilgangurinn hafi verið að mynda eigin eftirlaunasjóð.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem mbl.is hefur borist frá Júlíusi.

Segir þar að allt sem við komi sjóðnum sé í samræmi við íslensk lög og reglur, enda hafi Júlíus notið sérfræðiráðgjafar til að tryggja að réttilega og löglega væri að málum staðið. Þá segir hann að honum hafi verið ráðlagt að skrá stofnun sjóðsins í Mið-Ameríkuríkinu Panama og að hann hafi farið eftir þeim ráðleggingum.

„Ég hef hvorki fengið neitt greitt úr sjóðnum né haft af honum annars konar tekjur og hef ekki heimild til þess að ráðstafa fjármunum úr honum,“ skrifar Júlíus.

Biðst velvirðingar á að hafa ekki látið sjóðsins getið

„Ef greitt væri úr sjóðnum yrðu greiðslurnar skattskyldar á Íslandi líkt og gerist til dæmis með séreignarsparnaðarreikninga en til slíks hefur ekki komið.“

Þá segir hann fyrirkomulag sjóðsins og aðrar upplýsingar liggja fyrir hjá skattayfirvöldum.

„Enda þótt þess sé ekki krafist að geta eftirlaunasjóðs í hagsmunagreiningu borgarfulltrúa tel ég, eftir á að hyggja, að betur hefði farið á því og biðst velvirðingar á að hafa ekki gert það,“ skrifar Júlíus.

Tekur hann að lokum fram að hann eigi ekki bankareikninga, félög, fasteignir eða aðrar eignir utan Íslands.

mbl.is hafði samband við Júlíus en hann vildi ekki tjá sig frekar um málið umfram það sem fram kemur í yfirlýsingunni.

Uppfært:

Halldór Halldórsson oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn segist í samtali við mbl.is ekki vilja tjá sig um einkahagi Júlíusar Vífils.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert