Á fjórum fótum í Vínbúðinni

Verðmerkingin er með smæsta móti, en auk smás leturs fer …
Verðmerkingin er með smæsta móti, en auk smás leturs fer merki Vínbúðarinnar yfir verðmerkingu á lítraverði. mbl.is/Golli

Smágerðar verðmerkingar hafa vakið athygli neytenda sem leggja leið sín í Vínbúðina á Dalvegi í Kópavogi.

Mbl.is fékk ábendingu þess efnis að verðmerkingar á kassavínum, það er rauðvíni og hvítvíni sem er selt í þriggja lítra kössum, eru staðsettar í neðstu hillu í versluninni, sem gerir neytendum erfitt fyrir að lesa verðmerkingar og bera saman. Auk smás leturs er verðmerkingin á versta stað, í neðstu hillu.

„Til að gera verðsamanburð er best að bera saman lítraverðið, en sú merking er ennþá smærri,“ segir Páll Jónsson, smiður, sem leggur leið sína í Vínbúðina á Dalvegi af og til. „Ætli ég verði ekki mæta með hnéhlífar og leggjast á fjóra fætur næst þegar ég fer í Vínbúðina,“ segir Páll.

Auk þess fer merki Vínbúðarinnar, þrír rauðir punktar sem tákna vínber, yfir hluta verðmerkingarinnar. „Tölustafirnir hverfa í merkinu og það er nánast engin leið að sjá þá,“ segir Páll, sem hefur bent starfsfólki Vínbúðarinnar á vankanta merkingarinnar. „Ég er búinn að ræða þrisvar við starfsfólkið, en ekkert hefur verið gert.“  

Páll áætlar að letrið sé ekki stærra en tveir millimetrar, sem samsvarar 5 punkta letri. Mælingar smiðsins reyndust í nærra lagi en samkvæmt upplýsingum frá Vínbúðinni er minnsta letrið 8 punkta letur. 

Hillumiðamerkingar til endurskoðunar

Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri Vínbúðarinnar, segir starfsfólk og forsvarsmenn Vínbúðarinnar vera meðvituð um málið. „Við erum að endurskoða hillumiðamerkingar, með það að markmiði að gefa viðskiptavinum betri upplýsingar og hafa stærra letur,“ segir Sigrún Ósk í samtali við mbl.is. Hún bendir jafnframt á að viðskiptavinir geta sent inn ábendingu í gegnum heimasíðu Vínbúðarinnar. 

„Við vonum að við getum innleitt breytingu fljótlega en ég get ekki gefið nákvæma tímasetningu, það fer að hluta til eftir því hvernig pófun á þeirri lausn sem við erum að skoða kemur út.“

Meðal endurbóta er að nú hefur vínbúðarmerkið verið fjarlægt á nýju miðunum, sem skyggði á vörunúmerið, en að sögn Sigrúnar Óskar á einfaldlega eftir að uppfæra merkingar á Dalveginum. Þá verður einnig reynt að nota stærri miða í neðri hillurnar þar sem það er hægt að koma því við. 

Verðmerkingin er eingöngu í neðstu hillu Vínbúðarinnar. Verið er að …
Verðmerkingin er eingöngu í neðstu hillu Vínbúðarinnar. Verið er að endurskoða hillumiðamerkingar, að sögn aðstoðarforstjóra Vínbúðarinnar. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka