„Fólk skilur ekki og mun ekki skilja hvers vegna betra er að geyma eignir á slíkum eyjum en á þeirri, sem við búum á,“ segir Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, í pistli í Morgunblaðinu í dag þar sem hann veltir fyrir sér hvort annað uppgjör í kjölfar bankahrunsins haustið 2008 sé hugsanlega framundan. Það uppgjör gæti orðið ljótt að hans mati.
„Það er nú þegar uppnám á vettvangi stjórnmálanna. Það kann að magnast við þær upplýsingar, sem eiga eftir að koma fram, og það getur líka byrjað að beinast í aðrar áttir eða auka á þær deilur, sem nú þegar eru uppi,“ segir Styrmir og vísar til umræðunnar um skattaskjól og upplýsingar um eignir Íslendinga í þeim sem boðaðar hafa verið.
„Komi í ljós að þær snúist um það hvernig einstaklingar eða fyrirtæki hafi komið eignum fyrir í öruggu skjóli á meðan aðrir misstu eigur sínar má búast við enn frekara uppnámi en orðið er. [...] Nú kann annað uppgjör að vera framundan. Það getur orðið ljótt. Og þá er mikilvægt að í framhaldinu verði því beint í uppbyggilegri farveg.“