Fyrrverandi dómsmálaráðherra telur hugsanlegt að fyrirhugaðri þingsályktunartillögu stjórnarandstöðuflokkanna um þingrof og nýjar kosningar verði vísað frá í meðförum Alþingis á þeim forsendum að hún sé óþingleg þar sem þingrofsvaldið sé ekki hjá þinginu heldur forsætisráðherra.
Björn Bjarnason segir á Facebook-síðu sinni að tillagan sé fyrir vikið í raun markleysu og vísar í því sambandi til fréttar mbl.is þar sem rætt var við Helga Bernódusson, skrifstofustjóra Alþingis. Þar sagði Helgi að yrði tillagan samþykkt hefði hún engin bein réttaráhrif enda væri þingrofsvaldið sem fyrr segir hjá forsætisráðherra en ekki þinginu. Ráðherrann væri ekki lagalega bundinn af samþykkt Alþingis í þessum efnum. Hins vegar væri pólitíski veruleikinn sá að forsætisráðherra væri ekki stætt á öðru en að bregðast við.
Frétt mbl.is: Valdið hjá forsætisráðherra
„Tillaga um vantraust er leiðin sem eðlilegt er að fara - tillaga um þingrof er allt annað enda er þingrofsvaldið í höndum forsætisráðherra en ekki Alþingis,“ segir Björn ennfremur og bætir við að honum þyki ólíklegt að hugur fylgi máli varðandi þingrofstillöguna hjá öðrum stjórnarandstöðuflokkum en Pírötum sem mælst hafi með mikið fylgi ólíkt hinum flokkunum í stjórnarandstöðunni.