Egill líkir Íslandi við Rússland

Egill Helgason er sjónvarpsmaður á RÚV.
Egill Helgason er sjónvarpsmaður á RÚV. mbl.is/Steinar

„Seint myndi maður telja ástæðu til að bera saman Ísland og Rússland. En nú vill svo til að svipaður leikur er leikinn í Rússlandi þessa dagana,“ skrifar sjónvarpsmaðurinn Egill Helgason um varnir Framsóknarmanna í kjölfar frétta um eignir eiginkonu forsætisráðherra landsins, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.

Egill bendir á að eiginkona forsætisráðherra hefði skýrt að fyrra bragði frá því að fjármunir hennar væru geymdir utan landssteinanna, áður en fréttir af því voru fluttar í fjölmiðlum.

„Sveitin í kringum Sigmund Davíð vildi vera fyrri til. Þá strax var farið að tala um „Gróu á Leiti“ og „ógæfumenn“ sem væru að fiska eftir svona upplýsingum,“ skrifar Egill í pistli á Eyjunni. 

„Þetta heitir að vera fyrri til, á ensku er notað hugtakið pre empt – er alþekkt í almannatengslafræðum, ekki síst þegar reynt er að lágmarka skaða vegna óþægilegra upplýsinga,“ skrifar Egill en í kvöld verður sýndur sérstakur Kastljósþáttur í Ríkissjónvarpinu um eignir Íslendinga í aflandsfélögum.

Andrés Jónsson, almannatengill hjá Góðum samskiptum, fjallar um þetta sama mál á Facebook-síðu sinni. „Kannski er það engin tilviljun. Þau gátu verið fyrri til því fréttamennirnir sendu þeim spurningar fyrirfram. Það gæti verið hugsunin hjá fjölmiðlafólkinu að fá allar mótbárur fram áður til að „eldverja“ fréttina sína. Hún sé nógu stór til að þola að vera „skúbbuð“ af leikendum málsins og það sé betra að vera búin að tækla veikleika og röng atriði þegar hún loksins birtist.“

Egill skrifar að í kjölfar þess að sagt var frá eignum eiginkonu forsætisráðherra á erlendri grundu, hafi birst „skammir um Ríkisútvarpið“ og að þangað fari forsætisráðherrann ekki í viðtal. „Þingmaður úr Framsóknarflokknum skrifar grein um hvað RÚV sé ómögulegt, nokkru síðar birtist grein eftir annan þingmann Framsóknar og þar er ekki bara notað sama orðalag heldur eru beinlínis heilu efnisgreinarnar orðréttar,“ skrifar Egill. „Seint myndi maður telja ástæðu til að bera saman Ísland og Rússland. En nú vill svo til svipaður leikur er leikinn í Rússlandi þessa dagana.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert