„Það er ekkert launungarmál að mér hefur þótt undarlegt að fylgjast með því með hvaða hætti RÚV hefur nálgast þetta mál. Umfjöllunin öll hefur haft meira yfirbragð þess að segja sögu eða hanna atburðarás fremur en að greina frá staðreyndum,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í grein á vefsíðu sinni þar sem hann fjallar um það hvers vegna hann hafi ekki viljað veita Ríkisútvarpinu viðtöl vegna umræðunnar um skattaskjól.
„Byrjað var á að kalla til, sem álitsgjafa, menn sem hafa verið vægast sagt neikvæðir í minn garð og ríkisstjórnarinnar á síðustu misserum án þess að gera nokkra grein fyrir tengslum þeirra. Þannig var siðfræðingurinn sem sagði að Íslendingum bæri siðferðisleg skylda til að greiða Icesave fenginn til að leggja mat á málið strax í upphafi og aðrir úr sömu átt fylgdu svo í röðum. Næst var farið að hringja reglulega í þingmenn stjórnarliðsins en svör þeirra aldrei birt þegar þau töldust jákvæð í minn garð eða ríkisstjórnarinnar. Aðeins teknar út setningar sem hægt var að setja neikvætt yfirbragð á og þær settar í nýtt samhengi.“
Sigmundur segir að á sama tíma hafi honum borist fregnir af því að þeir sem hafi verið að undirbúa sérstakan Kastljóssþátt um skattaskjól væru að hringja vítt og breitt í fólk til þess að reyna að fá það til þess að rengja eitthvað af því sem hann hefði sagt um eignir konu hans á Bresku jómfrúareyjum og tekið því illa þegar frásögn hans hefði verið staðfest. Gjörsamlega hafi hins vegar keyrt um þverbak nýverið í þessum efnum.
„Þá flutti RÚV einstaklega ósmekklegan pistil Sigrúnar Davíðsdóttur sem birtur var sem frétt. Pistillinn gekk allur út á að gefa í skyn að ekki hefðu verið greiddir skattar af eignum eiginkonu minnar. Það byggðist fyrst og fremst á tilvísun í grein eftir Indriða H. Þorláksson frá árinu 2009. Í þeirri grein rakti hann að það hafi verið alsiða hjá bönkunum að stofna aflandsfélög fyrir vel stæða viðskiptavini sína á árunum fyrir hrun. Bent var á að slík félög hafi verið hægt að nota til að fela fjármagn og komast hjá því að greiða af því skatt og verða „sjálftökumenn“.“
Sigmundur segir að út frá þessu hafi Sigrún gefið í skyn að fyrst slíkt hefði verið hægt þá mætti reikna með því að það hafi verið gert enda þótt sagðar hefðu verið fréttir af eignum og skattgreiðslum konu hans frá upphafi í fjölmiðlum. Sigrún hafi á sama tíma ritað pistil um fjármála konu hans á heimasíðu sína á ensku „til að dreifa óhróðrinum sem víðast.“ „Ég hef reyndar orðið var við að einhverjir hér heima hafi lagt sig fram um að dreifa sögum til erlendra fjölmiðla þar sem farið er með rangt mál í grundvallaratriðum.“
Forsætisráðherra segir að þeir sem mest hafi gagnrýnt hann sé gjarnan sama fólkið og hafi mest staðið í vegi fyrir baráttu hans fyrir því að tryggja hagsmuni þjóðarinnar gagnvart kröfuhöfum föllnu bankanna, meðal annars á kostnað konu hans, og gegn því að Icesave-kröfunum yrði komið á herðar Íslendinga. Sigrún var í þeim hópi að sögn Sigmundar. Hún hafi árum saman fram að bankahruninu sérhæft sig í lofgreinum um útrás íslensku bankanna og annarra fyrirtækja. Eftir hrun hafi hún síðan verið einn ötulasti talsmaður breskra og hollenskra stjórnvalda í Icesave-deilunni og loks erlendra vogunarsjóða.
Grein Sigmundar lýkur á eftirfarandi orðum: „Svo er ég spurður af hverju ég sé ekki búinn að fara í viðtal á RÚV.“