Hápunktur tíu mánaða vinnu

Jóhannes Kr. Kristjánsson vann launalaust að verkefninu í tíu mánuði.
Jóhannes Kr. Kristjánsson vann launalaust að verkefninu í tíu mánuði. Ljósmynd/Heiðar Kristjánsson

Jóhannes Kr. Kristjánsson hjá Reykjavík Media segir að ekki standi til að gera listann yfir þau aflandsfélög lögmannsstofunnar Mossack Fonseca sem tengjast Íslandi opinberan. Raunar ræði ekki um eiginlegan lista heldur gagnagrunn sem leitað er í.

Þó sé ljóst að gögn um yfir 800 félög sem tengjast yfir 600 Íslendingum sé að finna í gagnagrunninum. Panamaskjölin svokölluðu eru yfir 11 milljón talsins og segir Jóhannes magnið svo mikið að það geti vel verið að í þeim leynist upplýsingar um frekari Íslandstengingar.

„Þetta er tíu mánaða vinna sem liggur að baki,“ segir Jóhannes. „Ég er búinn að vera viðloðandi ráðstefnur um rannsóknarblaðamennsku frá því 2008, á þessum ráðstefnum hef ég kynnst mörgum blaðamönnum, þ.á m. mörgu fólki í ICIJ, alþjóðasamtökum rannsóknarblaðamanna.“

Segir Jóhannes að í gegnum þessi tengsl hafi málin þróast þannig að hann varð meðlimur í samtökunum en eins og fram hefur komið hafa samtökin leitt vinnuna við afhjúpun Panamaskjalanna. Þættir áþekkir þeim sem Kastljós sýndi í kvöld voru sýndir á sama tíma í mörgum erlendum miðlum í kvöld en samtals hafa 376 blaðamenn víða um komið að vinnunni við gögnin.

RÚV greindi frá því kvöld að Jóhannes fengi 1,5 milljónir króna í greiðslu, eða því sem svaraði tveggja til þriggja mánaða launum, fyrir undirbúningsvinnu, myndefni og vinnu Reykjavík Media við þáttinn. Eins og áður sagði hefur Jóhannes unnið að verkefninu í tíu mánuði og er því ekki úr vegi að spyrja hvernig hann hafi fjármagnað starfið.

„Ég hef ekki verið með neitt fjármagn í þetta, ég hef verið launalaus í þessu alla þessa mánuði en ég á góða konu og góða fjölskyldu sem hafa stutt við bakið mér,“ segir hann og bætir við að tíminn hafi vissulega tekið á.

Í síðustu viku réði Jóhannes blaðamanninn Aðalstein Kjartansson  til Reykjavík Media og kom hann að vinnu við gögnin. Aðspurður hvað framundan sé fyrir þá Aðalstein og fyrirtækið segir hann að fyrst og fremst muni þeir halda áfram að segja fréttir tengdar Panamaskjölunum.

„Þær eru margar og Ísland skipar stóran sess.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert