Svandís Svavarsdóttir þingmaður Vinstri grænna segir að stjórnarandstaðan muni freista þess að fá svör forsætisráðherra við þeirri gagnrýni sem lögð hefur verið fram vegna aflandsfélags í eigu eiginkonu hans. Þetta kom fram í umræðum í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni fyrir hádegi.
„Ef hann hefði komið hreint fram með þetta fyrir kosningar þá hefði það ruglað svolítið þessa mynd fyrir kosningar sem haldið var uppi af Framsóknarflokknum, að Sigmundur væri þessi hvíti riddari baðaður ljósi að berjast gegn hinu myrka og dökka, það er kröfuhafana, bankana og þáverandi ríkisstjórn.
Þessi einfalda framsetning hefði ruglast, en hann og hans áróðursmaskína hafa greinilega metið það svo að það væri rétt að blekkja þjóðina með þessum hætti. Það er algjörlega óásættanleg hegðun forsætisráðherra sem er hér undir. Það er ekki þannig að menn vinni sér inn, með einhverjum fyrri hetjudáðum, að haga sér með þessum hætti.
Það er málsvörn Framsóknarflokksins, að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sé svo frábær og stórkostlegur, og hafi unnið þetta allt meira og minna einn, og þess vegna hafi hann sjálfdæmi um það, hvort hann eigi að láta þjóðina vita af milljarði króna í skattaskjólum, á Tortóla. Þarf þátturinn að vera lengri?“
Helgi Hjörvar þingflokksformaður Samfylkingar sagði fleiri hliðar vera á málinu.
„Það sem við erum kannski að sjá hérna og munum líklega sjá frekar í þættinum í kvöld; fóru þarna fjármunir út úr landinu fyrir hrun sem fólk sá ekki sóma sinn í að koma með aftur til landsins eftir hrunið til að byggja upp atvinnu hér á landi í miklu neyðarástandi?
Það er ekki Sigmundur Davíð sem á að fá að meta það hvort þessar upplýsingar eigi að líta dagsins ljós. Hann verður að upplýsa um þessa gríðarlega miklu hagsmuni þar sem hann er trúnaðarmaður þjóðarinnar í krafti síns embættis.“
Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokks sagði að ríkið hefði aldrei grætt á stöðugleikaskatti, þar sem slíkt hefði verið eignaupptaka sem ekki yrði samþykkt af Hæstarétti.
„Seðlabankinn á einkahlutafélag sem á einn stærsta hlutinn í þessum þrotabúum. Það er enginn að tala um það,“ sagði Brynjar. Hann viðurkenndi það að málið væri erfitt fyrir ríkisstjórnina. „Þetta er óheppilegt og erfitt pólitískt, ekki bara fyrir Sigmund heldur er þetta líka erfið umræða fyrir ríkisstjórnina.“
Brynjar sagði gagnrýni á ráðherra Sjálfstæðisflokksins ekki eiga rétt á sér. „Mér finnst þetta alveg vera komið út í öfgar. Bjarni var þarna með fjörutíu milljónir sem hann kom svo heim með árið 2009. Og mál Ólafar er ekki til að tala um.“
Svandís sagði þetta vera til marks um það að tvær þjóðir byggju í landinu. „Eitt prósent mannkyns býr yfir 95% af fjármagni jarðarinnar. Ísland er komið með kastljós alþjóðafjölmiðlanna á sig því við erum orðin táknmynd um þennan veruleika.“
Ásmundur Einar Daðason þingmaður Framsóknar sagði alla tilbúna í umræðu um hagsmunaskráningu þingmanna.
„Það er svolítið eins og verið sé að reyna að nota málið pólitískt. Þegar verið er að blanda velferðarkerfinu í þetta þá get ég ekki orða bundist um það að hér sé verið að kasta hnullungi úr glerhúsi. Þetta er fólkið sem var tilbúið að taka stór lán í útlöndum til að greiða hundruð milljarða til erlendra kröfuhafa, sem hefðu setið eins og mara á íslenska fjárhagnum núna.
Í staðinn er ríkissjóður búinn að lækka skuldirnar allverulega. Við erum að taka til okkar banka og nú er tækifæri til þess, sem var líka á síðasta kjörtímabili, að fara í raunverulega uppstokkun á fjármálakerfinu, sem ekki var gert við endurreisnina eftir hrun.“