Yfir fimm þúsund manns hafa boðað komu sína á Austurvöll á morgun þar sem til stendur að mótmæla ríkisstjórninni og krefjast kosninga.
Viðburðurinn ber yfirskriftina „KOSNINGAR STRAX!“ og er boðaður frá 17 til 19. Um 4.500 Facebook notendur hafa hakað við að þeir hafi áhuga á viðburðinum og enn fleiri, eða um 5.300 þegar þetta er skrifað, hafa hakað við að þeir muni mæta.
Þá hafa yfir 18.000 manns skrifað undir áskorun á Sigmund Davíð um að segja af sér sem forsætisráðherra og sem þingmaður.
Að sögn Birgittu Jónsdóttur, þingmanns Pírata, verður lögð fram vantrauststillaga gegn ríkisstjórninni á morgun, en þingflokksformenn stjórnarandstöðunnar hafa sent beiðni til þingforseta um að nefndarfundum í fyrramálið verði frestað.