Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd mun koma saman í hádeginu í dag og ræða aflandsfélög og hæfi ráðherra. Þetta kemur fram á vefsíðu Alþingis. Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, fer með formennsku í nefndinni.
Þingfundur hefst klukkan 15 þar sem óundirbúnar fyrirspurnir eru meðal dagskrárliða. Boðað hefur verið til mótmæla á Austurvelli klukkan 17 til að krefjast afsagnar forsætisráðherra. Rúmlega sjö þúsund manns hafa boðað komu sína.
Birgitt aJónsdóttir, þingmaður Pírata, sagði í samtali við mbl.is í gærkvöldi að lögð verði fram vantrauststillaga gegn ríkisstjórninni í dag. Þingflokksformenn stjórnarandstöðunnar sendu beiðni til þingforseta um að nefndarfundum fyrir hádegi í dag yrði frestað.
Formenn og þingflokksformenn stjórnarandstöðunnar munu hittast á fundi fyrir hádegi í dag vegna málsins.