Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, hefur lokið fundi sínum með Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta, á Bessastöðum. Hann segir að þeir hafi „spjallað“ og spurður hvort að þing verði rofið sagði hann:„Við sjáum til með þetta allt saman.“ Áður en hann settist inn í bílinn, eftir að hafa rutt sér leið í gegnum hóp innlendra og erlendra blaðamanna sagði hann svo: „Bless, bless.“
Sigmundur kom til fundarins laust fyrir hádegi í dag. Hann stóð því í tæpa klukkustund. Þingflokksfundur hefur verið boðaður hjá Framsóknarflokknum á eftir. Þá ætlar Ólafur Ragnar að ræða við fjölmiðlamenn á Bessastöðum fljótlega.
Sigmundur Davíð átti fund með Bjarna Benediktssyni, fjármálaráðherra í morgun og eftir þann fund skrifaði hann á Facebook síðu sína að „ef þingmenn flokksins treystu sér ekki til að styðja ríkisstjórnina við að ljúka sameiginlegum verkefnum okkar myndi ég rjúfa þing og boða til kosninga hið fyrsta.“
Svona voru samræður Sigmundar Davíðs og blaðamanna eftir fund forsætisráðherra og forseta:
Blaðamaður: Hvert var efni þessa fundar?
Sigmundur Davíð: Við vorum að spjalla.
Blaðamaður: Verður þingrof? Verður þing rofið að þinni ósk? Hver er niðurstaða fundarins?
Sigmundur Davíð: Við sjáum til með þetta allt saman.
Blaðamaður: Kemur það í ljós í dag? Ætlar þú að halda áfram sem forsætisráðherra?
Sigmundur Davíð: Bless, bless!