„Bless, bless“

Sigmundur mætti hópi blaðamanna er hann steig út úr Bessastöðum …
Sigmundur mætti hópi blaðamanna er hann steig út úr Bessastöðum nú eftir hádegi. mbl.is/Eggert

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, hefur lokið fundi sínum með Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta, á Bessastöðum. Hann segir að þeir hafi „spjallað“ og spurður hvort að þing verði rofið sagði hann:„Við sjáum til með þetta allt saman.“ Áður en hann settist inn í bílinn, eftir að hafa rutt sér leið í gegnum hóp innlendra og erlendra blaðamanna sagði hann svo: „Bless, bless.“

Sigmundur kom til fundarins laust fyrir hádegi í dag. Hann stóð því í tæpa klukkustund. Þingflokksfundur hefur verið boðaður hjá Framsóknarflokknum á eftir. Þá ætlar Ólafur Ragnar að ræða við fjölmiðlamenn á Bessastöðum fljótlega.

Sigmundur Davíð átti fund með Bjarna Benediktssyni, fjármálaráðherra í morgun og eftir þann fund skrifaði hann á Facebook síðu sína að „ef þing­menn flokks­ins treystu sér ekki til að styðja rík­is­stjórn­ina við að ljúka sam­eig­in­leg­um verk­efn­um okk­ar myndi ég rjúfa þing og boða til kosn­inga hið fyrsta.“

Svona voru samræður Sigmundar Davíðs og blaðamanna eftir fund forsætisráðherra og forseta:

Blaðamaður: Hvert var efni þessa fundar?
Sigmundur Davíð: Við vorum að spjalla. 
Blaðamaður: Verður þingrof? Verður þing rofið að þinni ósk? Hver er niðurstaða fundarins?
Sigmundur Davíð: Við sjáum til með þetta allt saman. 
Blaðamaður: Kemur það í ljós í dag? Ætlar þú að halda áfram sem forsætisráðherra?
Sigmundur Davíð: Bless, bless! 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kom til fundar við forsetann á Bessastöðum …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kom til fundar við forsetann á Bessastöðum fyrir hádegi í dag. mbl.is/Eggert
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert