Boðað hefur verið til mótmæla á Austurvelli annan daginn í röð. Mótmælin hefjast kl. 17 líkt og í gær. Það er hópurinn Beinar aðgerðir sem boðar til mótmælanna.
Á Facebook-síðu viðburðarins segir:
Komum saman á Austurvelli að nýju og höldum í hitann sem hefur myndast - með hljóðfæri, eldivið, mat, drykk og baráttugleðina við hönd! Þessari ríkisstjórn verður að koma frá, þó það sé bara byrjunin. Hafið samband við vini og deilið eftir öllum mögulegum leiðum - líka símleiðis og eftir áhrifaríkari leiðum en facebook býður upp á: Látum ekki baráttueldinn slökkna fyrr en takmarkinu hefur verið náð!
Í samtali mbl.is við lögreglu eftir mótmælin í gær kom fram að um níu þúsund manns hefðu mótmælt á Austurvelli en skipuleggjendur töldu að þangað hefðu 23 þúsund manns komið. Þess var krafist að Alþingiskosningar færu fram þegar í stað.
Að sögn lögreglu voru allar nærliggjandi götur yfirfullar og misræmið kann að skýrast af því að tölur skipuleggjenda miðast við gegnumstreymi á torginu á einhverjum tíma.
Frétt mbl.is: Hiti í mönnum utanhúss sem innan
Frétt mbl.is: „Viljum bara burt með þessa stjórn“