Bjarni: Ekki búið við óbreytt ástand

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að það sé stórfrétt að forsætisráðherra landsins hafi ákveðið að stíga til hliðar. Hann sagði á fundi við Sigmund Davíð Gunnlaugsson í morgun, að ekki yrði búið við óbreytt ástand. Bjarni hyggst ræða við Sigurð Inga Jóhannsson, varaformann Framsóknarflokksins og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um áframhaldandi samstarf.

Bjarni ræddi við fréttamenn á Bessastöðum eftir að hafa fundað með Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, um stöðu mála. 

Bjarni Benediktsson ræðir við fjölmiðlamenn á Bessastöðum síðdegis.
Bjarni Benediktsson ræðir við fjölmiðlamenn á Bessastöðum síðdegis. mbl.is/Eggert

 „Ég greindi honum frá fundi okkar forsætisráðherra í morgun, hvar ég sagði forsætisráðherra að það yrði ekki búið við óbreytt ástand,“ sagði Bjarni og bætti við að Framsóknarflokkurinn hefði, rétt áður en hann kom til fundar með Ólafi, haft samband við Bjarna og óskað eftir viðræðum við hann um framhald á stjórnarsamstarfinu.

Bjarni sagði að nú vildi hann fá tíma til að fara yfir stöðuna með Sigurði Inga. Bjarni mun nú funda með þingflokki Sjálfstæðisflokksins áður en hann mun funda með Framsóknarflokknum, en Bjarni telur að viðræðurnar muni taka nokkra daga.

Þakkar Ólafi fyrir inngripið

Bjarni segir að það sé bæði sjálfsagt og eðlilegt að ræða áframhaldandi samstarf flokkanna. „Það verður nú ekki annað sagt en að þetta inngrip í hádeginu í dag hafi verið mikilvægt, og ég þakka forsetanum fyrir að bregðast rétt við á viðkvæmu augnabliki þar sem að það var algjörlega órætt milli flokkanna hvort að það væri komið að því að fara fram á þingrof,“ sagði Bjarni.

Bjarni sagði við fréttamenn, að hann hefði litið á ákvörðun Sigmundar Davíðs þannig að hann hefði viljað hafa þingrofsheimildina „til að veifa framan í mig ef að við héldum fast við þá kröfu að það þyrfti að gera breytingar, en ég var búinn að segja forsætisráðherra að við í Sjálfstæðisflokknum óttuðumst ekki að ganga til kosninga - við værum tilbúin til þess að gera það ef að það væri hans niðurstaða; ef það væri hans svar við því útspili mínu og okkar í þingflokki Sjálfstæðisflokksins að það yrði að bregðast við stöðunni. Ef að það væri svarið þá þyrfti einfaldlega að ganga til kosninga, þá sagðist ég alveg sáttur við það.“

Vill ganga úr skugga um að flokkarnir hafi sameiginlega sýn

Bjarni sagði að nú myndi hann vilja ræða það við Sigurð Inga hvort það yrðu einhverjar frekari breytingar á ríkisstjórninni. Bjarni segir að það sé mikilvægt að skýra fyrir landsmönnum hvernig flokkarnir sjái fyrir sér næstu mánuði, enda mörg mikilvæg verkefni í gangi. Stærsta verkefnið sé afnám gjaldeyrishaftanna. „Ég vil ganga úr skugga um það að við séum með sameiginlega sýn á þau og þessa forgangsröðun hlutanna næstu mánuði, og meðal þess sem við þurfum að sjálfsögðu að ræða, og þarf ekkert að draga fjöður yfir það, það er það hvenær það yrði á endanum kosið. Hvort að það yrði þannig að við myndum láta kjörtímabilið líða, eða renna sitt skeið fram í apríl á næsta ári, eða ekki.“

Spurður hvort Sigmundur Davíð gæti orðið ráðherra í nýrri ríkisstjórn sagði Bjarni: „Ég hef litið þannig á að Framsóknarflokkurinn hafi sagt mér að það yrði ekki, þannig að ég þarf ekkert að ræða það.“ 

Bjarni var ennfremur spurður hvort hann nyti trausts áfram í ljósi þess að nafn hans hefði komið fram í Panamaskjölunum. „Ég met það þannig að ég hafi fullan stuðning til þess frá mínum flokksmönnum og ég mun ef eftir því verður leitað veita allar skýringar eða upplýsingar sem menn telja að enn þurfi.“

Bjarni hyggst ekki krefjast þess að verða forsætisráðherra

Spurður hvort þetta væri nóg til að lægja öldurnar sagði Bjarni: „Ég tel að þetta sé stórfrétt sem er gerast hér í dag. Það hljóta að teljast stórtíðindi að forsætisráðherra hafi ákveðið að stíga til hliðar. Og ef við horfum á það sem gerst hefur á þessu kjörtímabili, þá er það ekki svo að það hafi verið stjórnarstefnan eða verk ríkisstjórnarinnar sem hafi sætt sérstakri gagnrýni. Það eru þessir atburðir síðustu daga sem hafa dregið fram þessi miklu mótmæli og kröfu um breytingar sem ég vildi hlusta og fylgja eftir.“

Þá segist Bjarni ekki gera neina kröfu um það að hann verði forsætisráðherra í nýrri ríkisstjórn. Hann hafi verið í mörgum mikilvægum verkefnum í fjármálaráðuneytinu sem sé ólokið. Bjarni segist leggja áherslu á að tryggja farsæla lausn.

Spurður út í tímamörk, segir Bjarni að hann telji að þeir eigi að geta unnið þetta nokkuð hratt. „Þetta gerist ekki í dag, við þurfum að gefa okkur einhvern eðlilegan tíma [...] Þetta eru einhverjir dagar en ekki margir.“

Bjarni var umkringdur fréttamönnum á Bessastöðum í dag.
Bjarni var umkringdur fréttamönnum á Bessastöðum í dag. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert