Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að það hafi verið einhugur hjá þingflokknum á þingflokksfundi í Valhöll í dag að reyna á áframhaldandi samstarf stjórnarflokkanna. „Það var góð samstaða um það,“ segir hann í samtali við mbl.is. Eftir fundinn hittust hann og Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður Framsóknaflokksins og ræddu málið.
„Lögðum línur að næstu skrefum. Þetta var stuttur fundur og við vorum sammála um meginatriðin,“ segir Bjarni aðspurður um hvað rætt hafi verið á fundinum. Þá búist hann við fleiri fundum á næstu dögum, en Bjarni ítrekar að hann telji að það muni taka nokkra daga að ræða málið.
„Í grundvallaratriðum er þetta ekki flókið. Samstarf sömu flokkanna,“ segir Bjarni og bætir við: „Ég tel mikilvægt að staldra við og fríska upp á skilaboðin frá ríkisstjórninni um þau verkefni sem við viljum sinna sem ríkisstjórn fram að kosningum.“
Aðspurður um framgöngu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins, í málinu í dag segir Bjarni að hún hafi komið sér á óvart. „Sigmundur Davíð má eiga það að hann var skýr á því. Hann taldi tvo kosti og eingöngu tvo kosti vera í stöðunni og var hreinn og beinn með það. Kom mér á óvart að hann fór til þess að fá þingrofsheimildina staðfesta hjá forseta og það var rétt mat hjá forseta Íslands að það var ekki fullreynt hvort meirihluti væri áfram að styðja ríkisstjórnarflokkana áfram,“ sagði Bjarni. „Erfi ekkert í þessum efnum við Sigmund Davíð,“ bætti hann við.
Framsóknarflokkurinn lagði til að Sigurður Ingi yrði forsætisráðherra. Bjarni segir að það verði nú skoðað hjá Sjálfstæðismönnum. „Þetta var niðurstaða Framsóknarflokksins og við gerðum grein fyrir því að við myndum vilja ræða það við framsóknarmenn hvernig forystunni yrði háttað.“
Segist Bjarni ekki gera kröfu um forsætisráðuneytið sjálfur, erfitt sé að standa upp og hverfa frá því að ljúka afnámi gjaldeyrishaftanna.