Tilkynning upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar til erlendra fjölmiðla, þar sem fram kemur að forsætisráðherra hafi lagt til við þingflokk Framsóknarflokksins að Sigurður Ingi Jóhannsson tæki að sér embættið um ótilgreindan tíma, er í takt við stjórnskipunarlög. Þetta segir Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.
Samkvæmt 15. grein stjórnarskrárinnar veitir forseti ráðherra lausn og bendir Jóhannes á að Sigmundur Davíð hafi enn ekki sagt af sér.
„Þegar hann mun gera það verður greint frá því eins og eðlilegt er, eftir því sem rétt er, sem verður væntanlega á næstu dögum. Og varðandi þetta með óákveðinn tíma þá er þetta nú bara nákvæmlega það sem gerðist, eins og þeir sögðu þegar þeir komu út, þá var tillagan þannig að það var lagt til við þingflokkinn að [Sigmundur] stigi til hliðar og Sigurður Ingi tæki við embættisskyldum ráðherra um lengri eða skemmri tíma, eftir því sem semdist milli flokkanna. Þannig að þetta er nú bara nákvæmlega það sem gerðist, og bara til að svara spurningum um hvort hann sé búinn að segja af sér eða ekki. Þetta er bara tæknilega rétt,“ sagði Jóhannes í samtali við mbl.is.
Frétt mbl.is: Segir Sigmund ekki hafa sagt af sér
Í tilkynningunni, sem Sigurður Már Jónsson sendi á erlenda miðla, segir orðrétt:
„Í dag lagði forsætisráðherra Íslands, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, til við þingflokk Framsóknarflokksins að varaformaður Framsóknarflokksins tæki við embætti forsætisráðherra um ótilgreindan tíma. Forsætisráðherra hefur ekki sagt af sér og mun áfram sinna embætti formanns Framsóknarflokksins.“
Spurður að því hvort það væri ekki villandi að senda svona tilkynningu á erlenda blaðamenn svaraði Jóhannes:
„Það má vel vera að einhverjir misskilji þetta. En þetta er svona. Þetta er það sem gerðist og það er sjálfsagt að skýra þetta betur á morgun. Ég geri ráð fyrir að forsætisráðherra verði í viðtölum á morgun og þá verður þetta bara skýrt. Ég mun þá líka bara svara þeim fyrirspurnum sem berast um þetta, en þetta er einfaldlega það sem gerðist. Þetta er orðalagið í tillögunni nákvæmlega.“
Þegar blaðamaður benti Jóhannesi á að hvergi í tillögunni hefði verið talað um að Sigurður Ingi tæki við í ótilgreindan tíma sagði Jóhannes:
„Þetta er þannig sem þeir orða þetta þegar þeir koma út og ég hef ekkert heyrt neitt annað en að það hafi verið þetta sem menn sammælstu um.“
Frétt mbl.is: Afstaða Sigmundar virðingarverð
Tillagan sem Sigmundur og Sigurður Ingi sömdu og lögðu fyrir þingflokk Framsóknarflokksins var svohljóðandi:
„Forsætisráðherra leggur til að varaformaður flokksins taki við embætti forsætisráðherra svo það megi verða til að ríkisstjórnin geti lokið þeim mikilvægum verkum sem hún hefur unnið að og varða mikilvæga þjóðarhagsmuni.
Þingflokkurinn lýsir ánægju með þá virðingarverðu afstöðu formannsins sem felst í því að hann skuli vera reiðubúinn að stíga þetta skref til að gera ríkisstjórninni kleift að vinna áfram að þeim mikilvægu verkefnum sem nú liggja fyrir. Þingflokkurinn styður eftir sem áður formann flokksins og þykir mikilvægt að halda áfram þeirri vinnu sem sem formaðurinn hefur átt svo stóran þátt í að leggja grunn að.
Formaður, varaformaður og aðrir þingmenn flokksins eru sammála um að mikilvægt sé að halda áfram að upplýsa um þann fjölda fyrirtækja í eigu Íslendinga sem skráð eru erlendis til að tryggja að allir standi skil á sínu til samfélagsins eins og formaður flokksins og kona hans hafa gert.“