Mjög hafi fjarað undan Sigmundi

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisáðherra á þingfundi í gær.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisáðherra á þingfundi í gær. Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að hans fyrsta verk eftir að hann kemur til landsins árdegis í dag verði að ræða við Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.

Morgunblaðið náði tali af Bjarna í New York síðdegis í gær. Hann var spurður hver hefði orðið niðurstaðan af þingflokksfundum Sjálfstæðisflokksins í gær: „Niðurstaða fundanna var nú ekki önnur en sú að þingmenn bíða eftir því að ég komi heim og ræði við forsætisráðherra. Svo ræðum við næstu skref að því loknu,“ sagði Bjarni.

Bjarni segir að þingmenn flokksins skynji að þungt hljóð sé í fólki eftir umfjöllun um Panamaskjölin og tengsl íslenskra ráðamanna við skattaskjól. Hann segir þingmenn flokksins vera að leggja mat á stöðuna og mikilvægt sé að málin verði rædd við samstarfsflokkinn í ríkisstjórn um þá stöðu sem upp er komin, samkvæmt því sem Bjarni sagði í samtali við mbl.is í gærmorgun.

Bjarni var í New York þar til í gærkvöld, en vegna fimm tíma seinkunar tengiflugs í fyrradag missti Bjarni af flugvélinni til Íslands í fyrrakvöld. Bjarni var væntanlegur til landsins snemma í morgun.

„Ég ætla ekki að draga fjöður yfir að þessi staða er mjög þung fyrir ríkisstjórnina,“ sagði Bjarni, spurður um áhrif umfjöllunarinnar á ríkisstjórnina. Bjarni vildi ekki tjá sig um vantrauststillögu stjórnarandstöðunnar. Sagði að hann myndi gera það þegar heim væri komið.

Bjarni vildi ekki tjá sig um hvort hann teldi Sigmund Davíð Gunnlaugsson hæfan til að sitja áfram í stól forsætisráðherra. „Ég mun ekki tjá mig um stöðu ríkisstjórnarinnar eða einstaka ráðherra á meðan ég á eftir að ræða við þingflokkinn um þetta,“ sagði Bjarni.

Bjarni fundaði með þingflokki sjálfstæðismanna gegnum fjarfundabúnað í gær.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins voru þöglir sem gröfin í gær, þegar blaðamaður reyndi að fá þeirra mat á stöðunni. Sögðu þó flestir að málið væri mjög alvarlegt og erfitt væri að segja til um hver niðurstaða málsins yrði.

Sú skoðun var þó ljós að þingmenn Sjálfstæðisflokksins telja að mjög hafi fjarað undan forsætisráðherra, ekki síst í Framsóknarflokknum. Nokkrir bentu á að enginn þingmaður Framsóknarflokksins hefði komið forsætisráðherra til varnar á þingi í gær.

Talið er að 8 til 9 þúsund manns hafi verið á mótmælafundi á Austurvelli síðdegis í gær, þegar mest var, og 10-15 þúsund alls í miðbænum. Arnar Rúnar Marteinsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sagði við mbl.is að lögreglumenn á vakt hefðu ekki áður séð annan eins fjölda. Mótmælt var tengslum ráðamanna við skattaskjól og krafist afsagnar forsætisráðherra og ríkisstjórnarinnar. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði í viðtölum við fjölmiðla í gær að hann væri ekki að íhuga afsögn.

Umfjöllun um tengsl íslenskra stjórnmálamanna við félög í skattaskjólum í Kastljósi Sjónvarpsins á sunnudag og sérstaklega viðtal við Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sem þar var birt virtist mótmælendum og þingmönnum ofarlega í huga.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert