Fjölgað hefur í röðum mótmælenda við Austurvöll og segir blaðamaður mbl.is á vettvangi mótmælendur nú þekja um þrjá fjórðuhluta Austurvallar og enn streymi að fólk. Boðað var til mótmæla á Austurvelli klukkan fimm síðdegis, annan daginn í röð.
Þegar er byrjað að framkalla hávaða með því að berja í olíutunnur og girðinguna í kringum þinghúsið. Svipuð stemning er og í gær. Sjá má mörg sömu mótmælaskilti á svæðinu og í gær og bananar hafa víða verið hengdir upp í tré. Þá kallar fólk upp mótmæli sín, barið er í olíutunnur og grindverkið í kringum alþingishúsið til að framkalla hávaða.
Mótmælendahópurinn er mjög blandaður og á Austurvelli líkt og í gær og má sjá allt frá fjölskyldufólki með barnavagna til eldri borgara meðal mótmælenda.
Kristín Andrea Þórðardóttir kvikmyndaframleiðandi er ein þeirra sem mætt er á Austurvöll. „Ég vil fá þessa stjórn frá. Þrátt fyrir að það sé stærðargráðumunur á þessum brotum, þá vil ég alls ekki Bjarna áfram. Ég hef engan áhuga á að sjá Sigurð Inga, mann sem varði Sigmund Davíð í bak og fyrir. Ég vil helst nýja utanþingsstjórn. Þetta fólk er ekki starfi sínu vaxið,“ sagði Kristín Andrea.
Vera Sölvadóttir var einnig í hópi mótmælendanna. „Ég vissi í raun ekki hverju ég myndi mótmæla í dag, nema ég var viss um að það yrði eitthvað af því að atburðarásin er búin að vera mjög skrýtin,“ sagði Vera. „Þetta nýjasta útspil er eitt stórt hneyksli. Ég vil ríkisstjórnina frá og þetta var lélegt útspil í dag. Þetta var lélegur björgunarbátur.“
Það er hópurinn Beinar aðgerðir sem boðaði til mótmælanna í dag, en á Facebook-síðu viðburðarins segir:
Komum saman á Austurvelli að nýju og höldum í hitann sem hefur myndast - með hljóðfæri, eldivið, mat, drykk og baráttugleðina við hönd! Þessari ríkisstjórn verður að koma frá, þó það sé bara byrjunin. Hafið samband við vini og deilið eftir öllum mögulegum leiðum - líka símleiðis og eftir áhrifaríkari leiðum en facebook býður upp á: Látum ekki baráttueldinn slökkna fyrr en takmarkinu hefur verið náð!
Í samtali mbl.is við lögreglu eftir mótmælin í gær kom fram að um níu þúsund manns hefðu mótmælt á Austurvelli en skipuleggjendur töldu að þangað hefðu 23 þúsund manns komið. Þess var krafist að Alþingiskosningar færu fram þegar í stað.
Að sögn lögreglu voru allar nærliggjandi götur yfirfullar og misræmið kann að skýrast af því að tölur skipuleggjenda miðast við gegnumstreymi á torginu á einhverjum tíma.