Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segist binda vonir við að nóg hafi verið gert með afsögn Sigmundar Davíðs. Hann segir að eitt af þeim málum sem hann muni ræða við Sigurð Inga Jóhannsson, sem þingflokkur Framsóknar leggur fram að taki við embætti forsætisráðherra, sé hvort tilefni sé til að flýta kosningum. Þetta kom fram í viðtali við Bjarna í Kastljósi RÚV.
Í viðtalinu við Bjarna segir hann enn fremur eðlismun á máli sínu og Ólafar Nordal og svo í máli Sigmundar. „Þar er félag sem er til í dag og sem er með einhverjar eignir. Í því liggur aðalmunur, sem og að þar liggja kröfur á föllnu bankana.“
Hann kveðst hafa lesið þannig í stöðuna að það sé skýr og afdráttarlaus krafa um að brugðist sé við strax.
„Þetta er að mörgu leyti dapurlegur dagur. Spjótin beindust að forsætisráherra og það varð að bregðast við. Það var ekki hægt að halda áfram án einhverra viðbragða.“
Bjarni segir Sigmund hafa verið skýrann á því að annað hvort styddi sjálfstæðisflokkurinn ríkisstjórn með sig sem forsætisráðherra eða að gengið yrði til kosninga. Sjálfur hafi hann talið fleiri kosti í stöðunni. „Við erum þó alltaf tilbúin í kosningar.“
Hann kveðst þó heldur vilja ljúka fyrst ýmsum stórum verkefnum sem nú séu í gangi. „En við verðum að segja fólkinu í landinu hvað við ætlum að gera þangað til verður kosið og hvaða verkefni við þurfum að klára.“ Næst á dagskrá sé því að funda með Sigurði Inga. „Ég ætla að setjast niður með honum og láta reyna á hvort við erum ekki með sameiginlega sýn á þetta við þessar aðstæður sem uppi eru.“