Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir samstarf ríkisstjórnarflokkanna, Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins, ekki hanga á bláþræði. Enginn ríkisstjórnarfundur verður í dag.
„Nei, samstarfið hangir ekki á bláþræði vegna umræðu núna frekar en umræðu áður sem oft hefur verið hörð. Samstarf hangir eingöngu á bláþræði ef menn vilja ekki starfa saman,“ sagði hann í Ísland í bítið á Bylgjunni í morgun.
Sigmundur Davíð var meðal annars spurður um mótmæli gærdagsins, hvort það hefði ekki snert hann að sjá allan þennan mannfjölda samankominn til að krefjast þess að hann segði af sér og hvort hann spyrji sig ekki hvað það sé sem fólkið þarna úti vilji.
„Já, já. Auðvitað spyr maður sig að því. En það samt er held ég, öðruvísi, hafandi upplifað þetta svo oft og jafnvel mótmæli þar sem hlutir fóru algjörlega úr böndunum. Ég segi ekki að þetta sé komið upp í vana en þetta er orðið miklu tíðara en var. Það liggur alveg ljóst fyrir að það styðja ekki allir mig eða mína ríkisstjórn og mjög margir sem gera það ekki, eða alls ekki. Þannig er það í lýðræðisríki og sjálfsagt að menn noti slíkar leiðir til að sýna skoðun sína,“ sagði forsætisráðherra.
Það var ekki aðeins mannfjöldinn á Austurvelli sem vildi fá forsætisráðherra frá völdum því í gær skoruðu framsóknar- og sjálfstæðismenn á Akureyri á Sigmund að segja af sér.
„Það voru kannski ekki svo mikil ný tíðindi í því heldur hvað varðaði þann hóp, sem þar var um að ræða,“ sagði Sigmundur. Bætti hann við að hópurinn hefði áður skrifað greinar á sömu nótum þegar þeir hefðu viljað annan en hann í stöðu formanns. Um afmarkaðan hóp væri að ræða sem hefði ekki talist til stuðningsmanna hans.
„Aðalatriðið í þessu öllu er að ég er í pólitík af því að ég hafði og hef ennþá mjög sterkar skoðanir á því hvað þyrfti að gera hér á Íslandi þannig að ég geri engar athugasemdir við það að fólk hafi ólíkar skoðanir á mér. Ég er í þessu bara vegna þess að ég hef trú á ákveðnum hlutum,“ sagði Sigmundur Davíð.
Sagðist hann ekki hafa lagt stjórnmálin fyrir sig vegna launanna. Benti hann á að sem þingmaður hefði hann alltaf greitt sjálfur fyrir hótelgistingu, „meira að segja á ferðalögum erlendis“. Þá hefði hann hvorki innheimt bílastyrki né búsetustyrki eftir að hann flutti í nýtt kjördæmi. „Ég er ekki í pólitík til að hagnast á því sjálfur,“ sagði Sigmundur.
„Það er orðin mikil hefð fyrir því að menn lýsi skoðunum sínum með mótmælum á Íslandi sem var ekki áður en frá því að ég byrjaði í pólitíkinni, frá fyrsta degi í rauninni, hefur maður upplifað ýmislegt í mótmælum af ýmsum ástæðum.
Mér er enn í fersku minni áður en ég var orðinn þingmaður þegar ég, sem formaður flokksins, sat fundi með þáverandi formönnum á sama tíma og verið var að grýta grjóti í gluggana á bak við okkur og svo hefur maður upplifað ýmislegt hvað þessi mótmæli varðar og ekkert annað um það að segja en að svo framarlega sem mótmæli fara friðsamlega fram þá er það sjálfsagður réttur fólks til að lýsa skoðun sinni,“ sagði Sigmundur Davíð einnig um mótmælin.