Segir forsetann innleiða nýtt stjórnarfar

Vilhjálmur Bjarnason segir forseta Íslands vilja leiða inn nýtt stjórnarfar …
Vilhjálmur Bjarnason segir forseta Íslands vilja leiða inn nýtt stjórnarfar með því að hafna beiðni forsætisráðherra um að rjúfa þing. Mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir ákvörðun forseta að neita að veita Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, forsætisráðherra, heimild til að rjúfa þing afar sérstaka. 

Mér finnst þetta mjög sérstakt, þetta er alveg þvert á þá stjórnskipan sem maður lærði út af þingrofinu 1974 þegar Kristján Eldjárn og hans ráðgjafar töldu að forsætisráðherra hefði ótvírætt umboð,“ segir Vilhjálmur í samtali við mbl.is. 

Það er alveg greinilegt og hefur komið fram áður að forsetinn hefur viljað leiða hér inn nýtt stjórnarfar, svokallað forsetastjórnarfar en ekki þingræðisstjórnarfar og þetta er hluti af því og guð má vita hvert það leiðir. En ég hef aldrei talið að það væri hollt að hafa skapandi stjórnarfar.

Björg Thorarensen, prófessor í stjórnskipunarrétti sagði í samtali við Rúv að túlka mætti að forsetinn liti á sig gæslumann ríkisstjórnarinnar.

Gæslumaður ríkisstjórnarinnar heitir Alþingi, ríkisstjórnin situr í skjóli Alþingis en ekki forseta. Bæði mín lífsreynsla og mitt nám í stjórnskipunarrétti sem var nú töluvert þó að ég sé útskrifaður hagfræðingur. Þetta er ekki alveg í samræmi við þann stjórnskipunarrétt,“ segir Vilhjálmur.  

Vilhjálmur hafði ekki fengið boð á þingflokksfund hjá Sjálfstæðisflokknum en á von á að málin verði rædd sem fyrst.

Vantraustið á ríkisstjórnina í gær var fyrst og fremst vantraust á forsætisráðherra. Nú er tvennt í stöðunni, að hann víki og Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur haldi áfram stjórnarumboði ellegar að Sjálfstæðisflokkurinn myndi annars konar stjórn. Ég ætla rétt að vona að stjórnarandstaðan hafi meira traust á Sjálfstæðisflokknum en Framsóknarflokknum eftir það sem á undan er gengið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert