Þáttur Sigmundar „stærstur og verstur“

Ragnheiður Ríkharðsdóttir.
Ragnheiður Ríkharðsdóttir. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Persónulega finnst mér ekkert sjálfgefið að Sigurður Ingi verði forsætisráðherra þó að Sigmundur Davíð stígi til hliðar,“ segir Ragnheiður Ríkharðsdóttir, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, um sviptingar dagsins. „Ég held að það sé eitthvað sem flokkarnir verða einfaldlega að ræða sín á milli.“

Ragnheiður er stödd erlendis en hefur fylgst með þróun mála og segir afsögn Sigmundar Davíðs það eina rétta í stöðunni. Henni hugnast hins vegar ekki að rjúfa þing og boða til kosninga.

„Í þeirri stöðu sem er uppi núna held ég að það sé fyrir engan, ekki fyrir þjóðina, ekki fyrir neinn, að rjúfa þing og boða til kosninga. Þannig er staðan bara akkúrat í augnablikinu,“ segir Ragnheiður.

„Það er hins vegar spurning hvernig og hvort okkur tekst að ljúka ákveðnum verkefnum sem ég held að sé nauðsynlegt að ljúka. Og ég held að stjórn og stjórnarandstaða séu sammála að ljúka. Ákveðnum verkefnum í tengslum við afnám gjaldeyrishafta og svo framvegis.“

Ragnheiður segist ekki hafa heyrt af því hvaða kostir eru á borðinu.

„Nei, nú hefjast bara þessar samræður á milli þessara tveggja flokka. Sigmundur Davíð segir af sér og Framsóknarflokkurinn óskar í beinu framhaldi eftir því að áframhald verði á samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn. Og við erum með formanninn okkar í þeim viðræðum,“ segir hún.

„Við skulum bara sjá hvað kemur í ljós.“

En telur hún þessar breytingar nægja til að friða mótmælendur?

„Ég get ekkert sagt um það en þáttur forsætisráðherra í þessu ferli öllu var kannski stærstur og verstur, ef við getum orðað það svo, og ég held að það hljóti að vera sá tímapunktur akkúrat núna að það verði rætt á milli flokkanna hvernig við getum leitt þau mál til lykta sem við þurfum.“

Ragnheiður ítrekar að sér þyki þingrof og kosningar óráð; ljúka þurfi ákveðnum málum.

„Eftir það geta menn svo tekið upp spilin að nýju og sagt: Er réttur tími  til að boða til kosninga?“

En sér hún fyrir sér að stjórnarflokkarnir gangi til viðræðna við stjórnarandstöðuna um að klára þessi ákveðnu mál og skoða kosningar í framhaldinu?

„Persónulega finnst mér að það megi gera það og að menn eigi að gera það.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert