Afstaða forseta varðandi þingrof var ábyrg og skynsamleg. Þar nálgaðist hann málið út frá þjóðarhagsmunum. Þetta segir Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is í Alþingishúsinu.
Aðspurður um færslu Sigmundar á Facebook fyrr í dag og afstöðu forsetans til stöðunnar segir Guðlaugur að framkoma Sigmundar sé fordæmalaus. „Hann hafði ekki samband við sinn þingflokk áður en hann fór í þessa vegferð og mér fannst hún vera ábyrgðarlaus. Vegferð Sigmundar í þessu máli er fordæmalaus og ábyrgðarlaus,“ segir Guðlaugur.
Hann segir að nú sé það ábyrgð kjörinna fulltrúa að styrkja þjóðina en ekki stefna í tvísýnu efnahagslegum stöðugleika eða því sem gæti komið upp í pólitísku upplausnarástandi. Sagði hann að þeir Framsóknarþingmenn sem hann hefði rætt við hefðu flestir talað af ábyrgð og samstarfið verið gott. Staðan nú kalli aftur á móti á það að farið sé yfir þessi mál. Guðlaugur vildi engu spá fyrir um hver niðurstaðan af slíkri skoðun yrði.