Eftir lekann á Panama-skjölunum var rifjað upp mál Gylfa Arnbjörnssonar, forseta ASÍ, í tengslum við setu hans í félagi sem hafði tengsl við aflandseyjuna Tortóla. Í gær sögðust mótmælendur við Valhöll ætla að hittast á ný hjá ASÍ í dag klukkan 17:00 og taka á móti afsögn Gylfa vegna málsins. Gylfi segir í samtali við mbl.is að hann hafi fullan skilning á að þetta mál komi upp og að hann muni glaður ræða við mótmælendur um hvernig í pottana sé búið út af þessu máli.
Gylfi bendir á að málið hafi fyrst komið upp árið 2009 og þá hafi hann sent frá sér tilkynningu sem skýrði hans hlið málsins. Gengur það út á að í kringum síðustu aldarmót hafi Gylfi verið framkvæmdarstjóri Eignarhaldsfélags Alþýðubankans hf. (EFA) og samhliða því í stjórnum þeirra fyrirtækja sem félagið átti hlut í. EFA átti meðal annars í hugbúnaðarfyrirtækinu Hugviti (sem seinna varð GoPro/Landssteinar).
Yfirlýsing Gylfa í dag, 6. apríl 2016
Í yfirlýsingunni fer Gylfi yfir hvernig Hugvit hafi stækkað gríðarlega á þessum árum og verið með dótturfélög víða um heim með erlenda starfsmenn. Það hafi komið fram krafa starfsmanna um að hafa valrétt að hlutabréfum Hugvits og stjórn félagsins hafi samþykkt það.
Gylfi segir að niðurstaða endurskoðanda hafi verið að halda utan um kaupréttina í nýju félagi sem væri staðsett í Lúxemborg. Ástæða þess væri að eignarhaldsfélög þar í landi eru ekki skattlögð og stjórnin hafi talið rétt að starfsmenn myndu greiða skatta í samræmi við skattalöggjöf í þeim löndum þar sem þeir störfuðu og bjuggu. Ef utanumhaldið hefði verið í íslenska móðurfélaginu hefðu allir starfsmenn, jafnvel þótt þeir væru búsettir erlendis, þurft að greiða skatta á Íslandi af kaupréttunum.
Segir Gylfi að upplýsingaskylda hafi hvílt á félaginu í Lúxemborg og því hafi aldrei komið annað til greina en að upplýsa skattayfirvöld í viðkomandi löndum um þau laun eða hlunnindi sem starfsmenn þess myndu fá. Það væri ekkert öðruvísi með félagið í Lúxemborg.
Það sem flækir málið og tengir það við Tortóla er að stjórn Hugvits hafði samband við Kaupþing í Lúxemborg til að stofna þetta félag og segir Gylfi að svo virðist vera sem bankinn hafi átt félög í Lúxemborg á lager sem hafi verið stofnuð af einstaklingum á Tortóla. Stjórn Hugvits hafi aftur á móti ekkert vitað um þetta, annað en að búið væri að koma á fót félaginu og að það héti Motivation Investment Holding og væri staðsett í Lúxemborg. Þau hafi ekkert vitað af því að upphaflegir stofnendur þess hafi verið staðsettir á Tortóla.
Gylfi segir að nú sé að koma í ljós að bankarnir hafi stundað þessa iðju að stofna félög með þessum hætti til að dylja eignarhaldi. Þau hafi verið stofnuð í Lúxemborg með duldu eignarhaldi í Tortóla þannig að enginn vissi hver væri á bak við það. Í tilviki Hugvits hafi eignarhaldinu aftur á móti verið breytt og það opinbert hver ætti félagið þegar það var komið í eigu Hugvits.
Ekkert varð úr að félagið væri notað, en netbólan um aldarmótin sprakk áður en eitthvað varð úr þessum hugmyndum og hlutar félagins voru seldir og aðrir lagðir niður.
Gylfi tekur fram að hann hafi sjálfur enga hagsmuni haft af þessum málum. „Mín persóna blandast ekkert inn í þetta,“ segir hann. Þó telji hann mjög eðlilegt að málið komi upp að nýju núna í kjölfar leka Panama-skjalanna og umræðunnar sem fylgdi. Segist hann ætla að ræða við mótmælendur sem komi í dag og bjóða þeim í kaffi. „Ég hef fullan skilning á að þessi umræða kemur upp og mun að sjálfsögðu ræða við fólkið,“ segir Gylfi og bætir við að muni reyna að útskýra tilurð og tilgang þessa félags á sínum tíma.
Uppfært kl 12:59: Stjórnarformaður og framkvæmdastjóri GoPro Landsteina árið 2000 hafa einnig sent frá sér tilkynningu vegna umfjöllunar um málið. Hana má finna hér. Þar koma fram sömu upplýsingar og Gylfi hefur áður greint frá.