„Enginn skilur hvað er að gerast á Íslandi“

Sigmundur Davíð virtist hafa sagt af sér embætti í gær …
Sigmundur Davíð virtist hafa sagt af sér embætti í gær en í tilkynningu frá ríkisstjórninni í gærkvöldi var fullyrt að hann hefði ekki gert það. mbl.is/Styrmir Kári

Misvísandi yfirlýsingar sem hafa komið fram um hvort Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafi sagt af sér eða ekki eru til umfjöllunar á fréttavef norska ríkisútvarpsins NRK. Það ræðir við íslenskan markaðsfræðing í Kaupmannahöfn sem segir engan vita eða skilja hvað sé að gerast á Íslandi.

Athygli vakti í gærkvöldi þegar upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar sendi tilkynningu til erlendra blaðamanna þar sem fram kom að Sigmundur Davíð hafi ekki sagt af sér sem forsætisráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins hafi verið beðinn um að taka að sér embættið í „ótiltekinn“ tíma. Áður höfðu fulltrúa þingflokks Framsóknarflokksins tilkynnt að hann hefði stigið til hliðar sem forsætisráðherra.

„Fjölmiðlar hér í Danmörku hafa samband við mig sem eru að velta fyrir sér hvað sé að gerast á Íslandi þessa stundina. Það eina sem ég get sagt þeim er að það er enginn sem veit það eða skilur“ hefur NRK eftir Hirti Smárasyni, markaðsfræðingi í Kaupmannahöfn.

Í fréttinni eru raktar skýringar Jóhannesar Þórs Skúlasonar, aðstoðarmanns Sigmundar Davíðs, í samtali við mbl.is á tilkynningunni. Upplýsingarnar í henni séu „tæknilega réttar“.

„Það má vel vera að einhverjir misskilji þetta. En þetta er svona. Þetta er það sem gerðist og það er sjálfsagt að skýra þetta betur á morgun,“ hefur NRK upp viðtali mbl.is við Jóhannes Þór.

Fréttamaður NRK spyr Hjört hvernig orðspor Íslands sé eftir atburði þar síðustu daga.

„Að það sé ekki hægt að stóla á Íslendinga, þá skorti siðferði. En við getum breytt þessu auðveldlega ef ríkisstjórnin fer frá. Þá getum við sýnt að þetta er ekki almenn afstaða allra Íslendinga heldur eingöngu þeirra sem sitja í ríkisstjórn,“ segir Hjörtur.

Frétt NRK um misskilninginn á Íslandi

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert