Flokkar menn eftir Landsdómsmáli

Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert

„Þetta var ekkert kynnt okkur. Við sátum bara á fundi og þá birtist þetta okkur í frétt. Bjarni [Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins] var þá á leið út á Bessastaði og frétti þetta í gegnum síma.“

Þetta segir Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er hann var spurður út í þá stund þegar sagt var frá því að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, myndi víkja fyrir Sigurði Inga Jóhannssyni, varaformanni Framsóknarflokksins, í embætti forsætisráðherra Íslands.

Síðar sama dag sendi forsætisráðuneytið erlendum fjölmiðlum tilkynningu þar sem fram kemur að forsætisráðherra hafi ekki sagt af sér og að Sigurður Ingi hafi verið beðinn um að taka embættið að sér í „ótiltekinn tíma.“

„Það fer enginn forsætisráðherra frá tímabundið nema í veikindaleyfi,“ segir Vilhjálmur spurður út í atburði gærdagsins.

Ekki klúðrað neinum málefnum

Sigurður Ingi er í hópi þeirra þingmanna sem á sínum tíma samþykkti að Geir H. Haarde, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, yrði dreginn fyrir Landsdóm. Spurður út í afstöðu hans til Sigurðar Inga svarar Vilhjálmur:

„Afstaða mín til fólks mótast svolítið eftir Landsdómsmáli, það er ekkert leyndarmál.“

Þá segir Vilhjálmur mikilvægt að hafa í huga að Sjálfstæðisflokkurinn hafi í síðustu kosningum verið stærsti flokkur landsins. „Hann fékk umboð til fjögurra ára til að sitja á þingi og hefur ekki klúðrað einu einasta málefni. Þótt ráðherrar flokksins hafi verið í svolítilli brekku hafa þeir ekki klúðrað málefnum og það verður að meta það.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert