Niðurstaða könnunar MMR á fylgi flokkanna sýnir minnkun á fylgi Framsóknar um tæp 4% milli mælinga og mælist flokkurinn nú með minna fylgi heldur en Samfylkingin og Vinstri-grænir.
MMR kannaði fylgi stjórnmálaflokka og stuðning við ríkisstjórnina 4. til 5. apríl 2016. Niðurstöðurnar sýna minnkun á fylgi Framsóknar um tæp fjögur prósentustig milli mælinga og mælist flokkurinn nú með minna fylgi heldur en Samfylkingin og Vinstri-grænir. Vinstri-grænir bæta við sig fylgi sem nemur 3,5 prósentustigum frá síðustu könnun. Samfylkingin bætir við sig 0,7 prósentustigum. Stuðningur við ríkisstjórnina mældist nú 26,0%, sem er 6,4 prósentustigum minna en í síðustu mælingu sem fram fór um miðjan marsmánuð. Stuðningur við ríkistjórnina hefur ekki mælst lægri á þessu kjörtímabili.
Píratar mælast enn með langmest fylgi (36,7% fylgi). Fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist nú 22,5%, sem er óveruleg breyting frá síðustu mælingu. Fylgi Framsóknar er nú 8,7%, sem samsvarar lækkun um nær 4 prósentustig milli mælinga. Framsókn mælist nú með næst minnsta fylgi þeirra flokka sem nú hafa þingmenn á Alþingi. Samkvæmt mælingum hefur fylgi Vinstri-grænna aukist um 3,5 prósentustig síðan 18. mars og mælist nú 12,8%, fylgi Samfylkingar aukist um 0,7% og mælist nú 9,9% og fylgi Bjartrar framtíðar hefur á sama tíma aukist um 2,4 prósentustig og mælist nú 5,8%.
Stuðningur við ríkisstjórnina mældist 26,0% en mældist 32,4% í síðustu mælingu (18. mars) og 32,7% í könnuninni þar áður (sem lauk 1. mars síðastliðinn).
Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri, valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR.
Álitsgjafar MMR eru valdir úr Þjóðskrá þannig að þeir endurspegli lýðfræðilega samsetningu þjóðarinnar á hverjum tíma.
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 987 einstaklingar, 18 ára og eldri
Dagsetning framkvæmdar: 4. apríl til 5. apríl 2016