„Þetta er án efa með merkari dögum í íslenskri stjórnmálasögu síðustu áratugina og jafnvel lengur,“ segir Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur, spurður um atburðarás gærdagsins. Tekur þó fram að ekki sé útséð um hverjar verði lyktir málsins.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segist Stefanía Óskarsdóttir, lektor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, ekki muna eftir jafn dramatískri atburðarás í íslenskum stjórnmálum. Hún segir að það hafi blasað við, í hennar huga, að morgni mánudags að Sigmundur Davíð myndi hætta og Sigurður Ingi eða einhver annar framsóknarmaður taka við embættinu.
Það hafi orðið niðurstaðan, þrátt fyrir allar vendingar. Í gærmorgun hafi farið að renna á hana tvær grímur og hún talið að það stefndi í þingrof og nýjar kosningar. Bjarni Benediktsson hefði greinilega sett Sigmundi afarkosti.Sigmundur hafi í kjölfarið rokið til Bessastaða og beðið um þingrof. Forsetinn hafi greinilega reynt að róa hann og talið sig þurfa að ná tali af fleirum áður en hann samþykkti það. Þegar forsætisráðherra hafi komið á þingflokksfund Framsóknarflokksins hafi staðan greinilega verið skýrð út fyrir honum og hann sætt sig við niðurstöðuna.