Stjórnarandstöðuflokkarnir bæta við sig fylgi samkvæmt nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis. Stjórnarflokkarnir tapa hins vegar. Píratar bæta mestu við sig milli kannana og eru sem fyrr stærsti flokkur landsins og eru nú með 43 prósenta fylgi. Það er mesta fylgi sem þeir hafa mælst með í könnunum Fréttablaðsins. Sjálfstæðisflokkurinn er eftir sem áður næststærsti flokkurinn.
Þetta kemur fram í könnun sem Fréttablaðið gerði dagana 4. og 5. apríl, eða mánudag og þriðjudag í þessari viku en þar var afstaða til stjórnmálaflokkanna könnuð.
Hringt var í 1.052 þangað til náðist í 800 svarendur og var svarhlutfall því 76,1 prósent. Þátttakendur voru valdir með lagskiptu slembiúrtaki úr þjóðskrá. 56,6 prósent tóku afstöðu til spurningarinnar.
Flestir, eða 43 prósent svarenda, segjast myndu kjósa Pírata ef kosið yrði í dag, næstflestir eða 21,6 prósent myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn, 11,2 prósent myndu kjósa Vinstri græna, 10,2 prósent myndu kjósa Samfylkinguna, 7,9 prósent myndu kjósa Framsóknarflokkinn og 3,8 prósent myndu kjósa Bjarta framtíð. Þá sögðust 15,5 prósent ekki ætla að kjósa eða skila auðu, 14 prósent sögðust vera óákveðið en 13,9 prósent svöruðu ekki.
Frétt mbl.is: 81% vildi að Sigmundur segði af sér
Mikill meirihluti landsmanna telur að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson eigi að segja af sér embætti forsætisráðherra. Þetta er niðurstaða úr nýjum þjóðarpúlsi Gallup en könnunin var gerð á mánudag og þriðjudag.
Spurt var: „Telur þú að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson eigi að segja af sér sem forsætisráðherra eða telur þú að hann eigi að sitja áfram sem forsætisráðherra?“
Niðurstaðan er sú að 81% telja að Sigmundur Davíð eigi að segja af sér en 19%t telja að hann eigi ekki að segja af sér.