„Hvar endar eiginlega vitleysan?“

Anna Sigurlaug Pálsdóttir og Richard Branson.
Anna Sigurlaug Pálsdóttir og Richard Branson.

Haft er eftir Richard Branson, eiganda Virgin, í frétt Daily Mail að eiginkona Sigmundar Davíðs hafi hringt í sig og sagst vilja komast út í geim. Sigmundur Davíð segir þetta vitleysu. 

Branson stendur að geimferðaverkefninu Virgin Galactic. Í október árið 2014 lést einn flugmaður er geimfar á vegum þess eyðilagðist. „Eiginkona forsætisráðherra Íslands hringdi í mig daginn eftir slysið og sagði: „Ég vil skrá mig til að komast út í geim.“ Á ensku (svo enginn misskilji): „I want to sign to go to space.“

Mbl hafði samband við blaðamanninn Cole Moreton sem tók viðtalið við Branson fyrir Daily Mail. Hann fletti upp endurriti af samtali sínu við Branson og staðfesti að þetta hefði verið sagt. Eiginkona íslenska forsætisráðherrans hefði haft samband.

Sigmundur svarar þessu á Facebook-síðu sinni og vitnar í frétt Vísis, sem tók málið upp í frétt.

„Eiginkona mín og fjölskylda hafa mátt þola mikið síðustu vikurnar,“ skrifar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins og fráfarandi forsætisráðherra, á Facebook. „Það vekur hjá mér óhug að sjá hvernig fólk sem hefur aldrei hitt þessa yndislegu konu er reiðubúið að tjá sig um hana. Konu sem hefur alltaf staðið skil á öllu sínu gagnvart samfélaginu, ávallt sýnt af sér fórnfýsi og má raunar ekkert aumt sjá. Konu sem hefur ætíð verið helsti hvatamaður minn í þeim stóru verkefnum sem ég hef verið að vinna að í þágu samfélagsins jafnvel þótt sú hvatning hafi falið það í sér að hún gæfi stöðugt eftir af sínu.“

Sigmundur Davíð skrifar að „sumir blaðamenn og miðlar hafa flutt gagnrýnar en sanngjarnar og réttar fréttir af gangi mála að undanförnu“. Það hafi hins vegar ekki allir gert. „Eftir að æsingurinn varð sem mestur hafa rangfærslurnar, getgáturnar og útúrsnúningarnir um málið verið svo miklir (á sumum stöðum) að það hefur ekki verið vinnandi vegur að reyna að leiðrétta það.“

Svo skrifar Sigmundur Davíð: „Nú hefur vitleysan hins vegar náð stjarnfræðilegum hæðum. Í frétt á Vísi er fullyrt að eiginkona mín hafi pantað sér ferð út í geim! Ég þurfti að lesa þetta fimm sinnum og athuga jafn-oft hvort ég væri að lesa pistil á grínsíðu eða fréttasíðu.“

Hann segir að eins og geta megi nærri „er fréttin bull frá upphafi til enda eins og reyndar ýmislegt annað sem fram kemur á þeim miðli sem Vísir vitnar til. En það virðist orðið ljóst að það séu engin takmörk fyrir því hversu langt menn eru tilbúnir að ganga í súrrealískum „fréttaflutningi“ af mínum nánustu. Hvar endar eiginlega vitleysan ef hún takmarkast ekki einu sinni við gufuhvolf jarðar?“

Richard Branson.
Richard Branson. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert