Skrifstofa Alþingis staðfesti ekki skilning Kastljóss á reglum um skráningu hagsmuna þingmanna eins og haldið var fram í umfjöllun þess um aflandsfélag í eigu fjármálaráðherra. Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, segir það alrangt og það sé þingmanna að túlka reglurnar sjálfir.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, hefur verið gagnrýndur fyrir að hafa ekki getið hlutar síns í aflandsfélaginu Falson & co., sem skráð var á Seychelles-eyjum, í hagsmunaskráningu Alþingismanna. Hann hefur meðal annars gefið þá skýringu að þar sem að félagið hafi ekki verið í atvinnurekstri þá hafi hann ekki talið að sér væri skylt að greina frá því.
Í b-lið 3. greinar reglna um skráningu fjárhagslegra hagsmuna Alþingismanna sem fjallar um eignir þingmanna sem ber að skrá segir orðrétt: „Heiti félags, sparisjóðs eða sjálfseignarstofnunar í atvinnurekstri, sem alþingismaður á hlut í [...] “.
Í umfjöllun Kastljóss síðasta sunnudag var vísað til þess að í fréttatilkynningu forsætisnefndar sem setti reglurnar í mars 2009 þar sem reglurnar eru skýrðar sé hvergi getið um hvort félög séu í atvinnurekstri né heldur er hann skilgreindur.
Fullyrt var að skrifstofa Alþingis hafi staðfest þann skilning á reglunum. Helgi Seljan endurtók þá fullyrðingu í viðtali við fjármálaráðherra í Kastljósi í gærkvöldi. Þessu hafnar skrifstofustjóri Alþingis algerlega.
„Það er alrangt. Ég tók það sérstaklega fram við fréttamann frá Ríkisútvarpinu að ég hefði enga heimild til þess að segja hvað væri rétt eða rangt í þessum efnum. Forseti Alþingis hefði ekki heldur rétt til þess og forsætisnefnd ekki heldur. Framkvæmd þessara reglna eru algerlega á ábyrgð þingmanna sjálfra og ég tel að í því felist að þeir beri ábyrgð á því hvernig þeir skilja þessar reglur,“ segir Helgi í samtali við mbl.is.
Hann sagðist aðeins hafa talað um setningafræðileg sjónarmið, um forsetningarliðinn „í atvinnurekstri“, en ekki um efnisatriði málsins.
„En ég tók það sérstaklega fram að ég hefði enga heimild til að kveða upp úr um hvernig beri að skilja þetta. Við höfum ekki staðfest nokkurn skilning að þessu leyti,“ segir Helgi.
Spurður að því hvort að þingmönnum sé ekki í sjálfsvald selt hvað þeir gefi upp í hagsmunaskráningu sinni ef þeim er ætlað að túlka reglurnar sjálfir segist Helgi gera ráð fyrir að þeir nálgist þær af heiðarleika.
„Maður ætlar mönnum ekki annað en ganga um reglurnar af heiðarleika og sanngirni. Tilgangur þessara reglna er að skrá eignir, tekjur og önnur fríðindi sem geta orðið til vandræða í sambandi við hagsmunaárekstra við meðferð mála í þinginu. Það er alveg ljóst að það er lagt á menn með þessum reglum að skrá eignir. Út á það gengur þessi hluti reglnanna. Ég ætla öllum mönnum að vilja ganga heiðarlega fram en ekki með því hugarfari að mistúlka þær eða sniðganga. En skrifstofan getur ekki sannreynt að rétt sé skráð, við getum ekki heimtað skattskýrslur þingmanna, skrár um boðsferðir þeirra til útlanda, gjafir o.s.frv. Og aðalatriðið er að þingmenn sækja umboð sitt til kjósenda og standa þeim reikningsskap gerða sinna og orða,“ segir Helgi.