„Stjórnarandstaðan er í rusli líka“

Leiðtogar stjórnarflokkanna hafa komist að þeirri niðurstöðu að halda stjórnarsamstarfi áfram á grundvelli sömu verkaskiptingar og verið hefur, þ.e. fara fyrir sömu ráðuneytum. Þetta sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á blaðmannafundi rétt í þessu.

Hann sagði skýran meirihluta fyrir áframhaldandi samstarfi flokkanna og að samstarfið yrði byggt á þeim meirihluta.

Bjarni sagði að í þessari viku hefði verið stigið sögulegt skref til að bregðast við þeim aðstæðum sem skapast hefðu í íslensku samfélagi, og vitnaði til afsagnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra.

Hann sagði þó að stjónarmeirihlutinn hefði viljað stíga viðbótarskref til að mæta kröfum um að virkja lýðræðið í landinu og koma til móts við þá stöðu sem hefur myndast, og stefna að því að halda kosningar í haust, þ.e. stytta kjörtímabilið um eitt löggjafarþing. Hann sagði að nákvæm dagsetning myndi ráðast af framvindu þingmála, en málaskráin væri löng. Stærsta óframkomna málið tengdist afnámi gjaldeyrishafta en það yrði komið fram innan tveggja til þriggja vikna.

Frétt mbl.is: Boðað til kosninga í haust

Sigurður Ingi Jóhannsson, verðandi forsætisráðherra, sagði að ríkisstjórnin myndi halda áfram að vinna að þeim stóru verkefnum sem hún hefði unnið að og náð glæsilegum árangri með. Hann sagði að áhersla yrði lögð á stóru málin; afnám hafta, húsnæðismál og heilbrigðismál. Hann sagði að það mikilvægasta í þessu sambandi væri að þegar ríkisstjórnin hefði lokið sínum störfum væri búið að skapa svigrúm til að styrkja innviði á öllum sviðum.

Aðspurðir sögðu Sigurður og Bjarni að fullkomin eining ríkti í þingflokkum þeirra um þessa niðurstöðu. Sigurður neitaði því að til hefði staðið að skipa Ásmund Einar Daðason ráðherra en að því hefði verið hafnað.

Hann sagði að það yrði tilkynnt á morgun hver tæki hans sæti í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Þá hefðu hann og Bjarni óskaði eftir því við forsætisráðherra að hann hefði samband við forsetaembættið og boðaði til ríkisráðsfundar á morgun.

Sigurður staðfesti að Sigmundur yrði „óbreyttur þingmaður“.

Sigurður Ingi og Bjarni í þinghússtiganum.
Sigurður Ingi og Bjarni í þinghússtiganum. mbl.is/Golli

Þegar ráðherrarnir voru spurðir um ólíka afstöðu Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks til þeirra mála sem enn ætti eftir að afgreiða var fátt um svör. Þeir sögðu að þegar ákveðið væri að stytta kjörtímabilið þyrftu menn að forgangsraða upp á nýtt og raða brýnustu málum fremst.

„Stjórnarandstaðan er í rusli líka,“ svaraði Bjarni spurður að því hvort þeir treystu sér í kosningar. Hann sagði alla flokkana hafa fengið að finna á því, nema Píratar sem hefðu „skriðið inn á þing“.

Bjarni sagði of sterkt til orða tekið að tala um upplausn í þjóðfélaginu; í aðstæðum á borð við þessum reyndi á flokkana og þingið. Hann sagði ekki ríkja meiri upplausn en svo að ríkisstjórnin hefði 38 þingmenn að baki sér.

„Við munum bregðast við henni með því að greiða 38 atkvæði á móti henni,“ svaraði hann spurður um yfirvofandi vantrausttillögu.

Sagðist Bjarni binda vonir við að friður ríkti um störf þingsins næstu daga þrátt fyrir boðuð mótmæli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert