„Það fór ekkert á milli mála“

Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tillaga Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fráfarandi forsætisráðherra, á þingflokksfundi framsóknarmanna í gær gekk út á það að hann hætti og Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tæki við. Þetta segir Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, aðspurður í samtali við mbl.is. Ekki væri einungis um tímabundið fyrirkomulag að ræða.

„Ekki tímabundið, Sigmundur er að hætta. Það liggur alveg klárt fyrir,“ segir Karl. Spurður hvort það hafi eitthvað farið á milli mála á fundinum segir hann: „Það fór ekkert á milli mála.“ Spurður hvort hann hafi stutt tillöguna segir Karl að svo hafi verið. Fram hefur komið að tillagan hafi verið studd af öllum þingmönnum á þingflokknum fyrir utan einn.

Þingflokksformaður Framsóknarflokksins, Ásmundur Einar Daðason, lagði sama skilning í tillöguna eins og fram kom í viðtali mbl.is við hann fyrr í dag. „Menn hafa bara lagt þann skilning í þetta að Sigurður Ingi væri að taka við forsætisráðherraembættinu,“ segir Ásmundur. „Hann [Sigmundur Davíð] er að stíga til hliðar og Sigurður Ingi er að taka við. Það er minn skilningur. Það er held ég alveg skýrt,“ sagði Ásmundur.

Spurður um framhaldið segist Karl bjartsýnn. Það sé vilji hjá báðum stjórnarflokkunum að halda samstarfinu áfram.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisáðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisáðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert