„Ég skil þetta bara þannig að Sigmundur Davíð [Gunnlaugsson forsætisráðherra] er að fara frá,“ segir Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is og vísar í máli sínu til þeirra tilkynninga sem fram komu í gær um stöðu forsætisráðherrans í embætti.
Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður Framsóknarflokksins, sagði fjölmiðlum í gær að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson myndi stíga til hliðar og hætta sem forsætisráðherra. Sagði hann einnig að Sigmundur Davíð myndi gegna þingmennsku áfram sem og embætti formanns Framsóknarflokksins.
Síðar sama dag kom hins vegar tilkynning frá forsætisráðuneytinu og var hún send erlendum fjölmiðlum. Í henni kemur fram að Sigmundur Davíð hafi ekki sagt af sér embætti og að Sigurður Ingi hafi verið beðinn um að taka embættið að sér í „ótiltekinn tíma.“
„Sigmundur Davíð er að hætta og ríkisstjórnin verður sjálfstæð. Svo sjáum við bara hver niðurstaðan verður á milli Bjarna [Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins] og Sigurðar Inga,“ segir Vilhjálmur.
Spurður hvernig honum litist á það að Sigurður Ingi taki við embætti forsætisráðherra segir Vilhjálmur: „Það veltur á því hvernig hagsmunum þjóðarinnar verða tryggðir og hvaða fyrirkomulag verður á því samstarfi. Þetta snýst fyrst og fremst um það að koma á ró í landinu.“
Sigurður Ingi er í hópi þeirra þingmanna sem á sínum tíma samþykkti að Geir H. Haarde, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, yrði dreginn fyrir Landsdóm. Spurður hvort það kann að hafa áhrif á gang mála nú svarar Vilhjálmur:
„Auðvitað fylgir sú saga öllum þeim sem tóku þátt í þeim skrípaleik. En hvort það hefur áhrif, við verðum bara að sýna smá yfirvegun í því ástandi sem nú ríkir.“
Þá segist hann aðspurður vilja sjá Bjarna sem forsætisráðherra. „Auðvitað vil ég það. En hann er líka að gera góð verk þar sem hann er nú.“