Katrín Jakobsdóttir segir til standa að halda kröfu stjórnarandstöðuflokkanna um vantraust, þingrof og kosningar, til streitu. Fyrir liggi að boðaður sé þingfundur á morgun klukkan hálf ellefu en óljóst sé hvort þar muni ný ríkisstjórn sitja fyrir svörum eða sú gamla.
Katrín segir að það sem henni finnist athugavert við málið, hvað svo sem líður því hvernig forsætisráðherra steig til hliðar, sé að enn hafi ekki borist svör frá stjórnarflokkunum um hvernig eigi að taka á þeim stóra vanda sem skattaskjól eru almenn. Vandamálið sé mun stærra en svo að það endi með afsögn Sigmundar.
„Bara í þessum leka eru 600 félög sem tengjast Íslandi og 800 nöfn sem sýnir okkur að hér er lítill, fámennur hópur auðugs fólks sem er að kjósa að nýta sér þessi skattaskjól í einhverjum tilgangi. Við vitum alveg að þó svo að það kalli ekki á að fólk sé að svíkja undan skatti þá snýst þetta um leynd á eignarhaldi og að fylgja öðrum reglum en við höfum sammælst um að fylgja í viðskiptaháttum," segir Katrín.
„Ég hef ekki heyrt nokkurn mann tala um hvernig við eigum að taka á þessu heldur hafa menn frekar reynt að verja þá staðreynd að kjörnir menn hafa verið í einhverju bixi í þessum aflandsfélögum. Við í VG höfum ekki trú á því að áframhaldandi samstarf þessara flokka muni skila neinum árangri í að takast á við þetta stóra mál. Þess vegna höldum við okkar kröfum til streitu.“