Hópurinn Jæja, sem skipulagt hefur mótmæli á Austurvelli í vikunni, hefur boðað til mótmæla við Bessastaði kl. 12 í dag. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fráfarandi forsætisráðherra, mun biðjast lausnar í dag. Boðað hefur verið til ríkisráðsfunda á Bessastöðum og er búist við að þeir verði um miðjan dag.
Á fyrri fundinum fundar núverandi ríkisstjórn og þar mun Sigmundur Davíð biðjast lausnar. Eftir það fundar ný ríkisstjórn sem verður undir stjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar sem nú er sjávarútvegsráðherra.
Lilja Alfreðsdóttir verður ráðherra samkvæmt tillögu Sigmundar Davíðs. Kosningum verður flýtt og yfirstandandi þing það síðasta á kjörtímabilinu.
Boðað er til mótmælanna á Facebook. Á síðu viðburðarins stendur: Mótmæli við skrípaleikinn sem fram á að fara við Bessastaði í dag og má ætla að þar sé vísað í ríkissráðsfundina tvo. Einnig hefur verið boðað til mótmæla á Austurvelli í dag kl. 17 líkt og síðustu daga.