Fylgi Pírata dalar

Vordagur í Reykjavík.
Vordagur í Reykjavík. mbl.is/ Styrmir Kári

Vinstri græn og Björt framtíð bæta við sig fylgi en fylgi Pírata og Samfylkingar minnkar frá því um síðastliðin áramót samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallup.

Næstum 17 prósent þeirra sem tóku afstöðu segjast myndu kjósa Vinstri græn sem er um sex prósentustigum meira en í mars. Fylgi flokksins hefur ekki mælst eins hátt síðan í júlí 2011.

Tæplega 6 prósent segjast myndu kjósa Bjarta framtíð sem er rúmum tveimur prósentustigum meira en í mars.

Fylgi við Pírata dalar um nær fjögur prósentustig en rösklega 32 prósent segjast myndu kjósa flokkinn nú.

Fylgi við Samfylkinguna dalar um tvö prósentustig og segjast nú tæplega 8 prósent myndu kjósa flokkinn. Ekki er tölfræðilega marktæk breyting á fylgi annarra flokka frá síðustu mælingu.

Nær 22 prósent segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn, næstum 11 prósent Framsóknarflokkinn, rúmlega 3 prósent Viðreisn og tæplega 2 prósent aðra flokka.


Nær 11 prósent taka ekki afstöðu eða neita að gefa hana upp og 8% svarenda segjast myndu skila auðu eða ekki kjósa ef kosið yrði til Alþingis í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert