Opna sjónrænan gagnagrunn í maí

Jóhannes Kr. Kristjánsson.
Jóhannes Kr. Kristjánsson. Ljósmynd/Heiðar Kristjánsson

Þó nokkrir einstaklingar hafa leitað sér lögfræðiaðstoðar vegna fyrirhugaðra umfjallana um Panama-skjölin. Þetta segir Jóhannes Kr. Kristjánsson blaðamaður í samtali við Fréttatímann. Hann segir finna fyrir titringi vegna þess sem á eftir að koma.

Fréttatíminn hefur birt viðtal við Jóhannes, sem tekið var kl. 23 á þriðjudagskvöld. Þá var ljóst að afleiðingar uppljóstrana Reykjavík Media, í samstarfið við Kastljós, yrðu umtalsverðar.

Í viðtalinu segir Jóhannes m.a. að það hafi verið ómetanlegt að geta speglað fréttirnar sem hann vann upp úr gögnunum frá ICIJ, International Consortium of Investigative Journalists, í erlendum kollegum sem unnu að verkefninu.

Til dæmis varðandi stjórnmálamennina. Erlendu kollegarnir voru gallharðir á því að mál Sigmundar Davíðs snerist ekki um lagatæknileg atriði heldur siðferði valdamesta fólks landsins. Hér heima hefur umræðan hinsvegar aðeins snúist um lögfræði, það er eins og siðferðið skipti ekki máli,“ segir Jóhannes.

Nöfn 600 Íslendinga er að finna í gögnunum og er frekari frétta að vænta í maí.

„Menn eru stanslaust að hringja í mig og biðja mig um nafnalistann. Það er ekkert svoleiðis til. Ég hef leitarheimild í gagnagrunni þar sem fundist hafa íslensk nöfn en ég hef ekkert leyfi til að gefa út lista. Aðeins ICIJ hefur slíkt leyfi. Í maí munu samtökin opna fyrir sjónrænan gagnagrunn þar sem hægt verður að leita eftir nöfnum tengdum aflandsfélögum. Ég veit að þó nokkrir einstaklingar hafa þegar leitað sér lögfræðiaðstoðar vegna fyrirhugaðra umfjallana og það er titringur vegna þess sem á eftir að koma,“ segir hann.

Viðtalið við Jóhannes er að finna á heimasíðu Fréttatímans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert